Þegar Focke-Wulf var skotin niður við Grímsey

Þegar Focke-Wulf var skotin niður við Grímsey

Eftirfarandi grein birtist upphaflega á vef Grenndargralsins.

Fimmtudaginn 5. ágúst 1943 voru sjómenn á nokkrum bátum að veiðum við Grímsey þegar þeir urðu vitni að orrustu í háloftunum milli tveggja amerískra flugvéla af gerðinni P-38 og þýskrar vélar af gerðinni Focke-Wulf.

Veður var með besta móti þennan fimmtudagseftirmiðdag fyrir 77 árum síðan. Þýska vélin flaug lágt þegar hún sveif framhjá trillunum en hækkaði flugið þegar hún nálgaðist Grímsey. Tvær amerískar orrustuflugvélar birtust, veittu þeirri þýsku eftirför og hófu skothríð. Þýska vélin svaraði í sömu mynt og hæfði aðra P-38 vélina svo hún varð að snúa til baka og lenda á Melgerðismelum í Eyjafirði. Flugmenn vélarinnar sem varð eftir, þeir William E. Bethea og Richard M. Holly, héldu skothríðinni áfram. Fór svo að þýska vélin hrapaði í sjóinn ekki svo langt frá þeim stað sem sjómennirnir voru að draga björg í bú.

Í ævisögu sinni Einu sinni var sem kom út árið 1971 segir Sæmundur Dúason frá því þegar hann var staddur í Grímsey þegar flugorrustan yfir Grímsey átti sér stað. Sæmundur var ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum að þurrka töðu á túninu en hafði skroppið inn í kaffi þegar miklar drunur heyrðust utan frá, líkt og þrumuhljóð:

„…Hver þruman kvað við eftir aðra úr hríðskotabyssum flugvélanna. Og það leið ekki á löngu, þar til þýzka vélin hrapaði.[…] Áhöfnin, sex eða sjö manns, komst í gúmmíbát. Nokkrir fiskibátar úr Grímsey voru þarna nærri, sem vélin kom niður. Grímseyinga fýsti að bjarga skipbrotsmönnunum. En þeim var varnað þess.[…] Hvert skipti sem Grímseyingar gerðu sig líklega til að leggja að gúmmíbátnum, helltu þeir í flugvélinni úr vélbyssum sínum rétt fyrir framan stefni bátanna. Tveir amerískir setuliðsmenn voru í eyjunni. Þeir fengu skeyti um að bjarga Þjóðverjunum. Þeir brugðu auðvitað við af skyndingu, fengu léðan bát og menn til að fara með sér. En áður en þeir höfðu lagt frá, fengu þeir annað skeyti: „Farið ekki, þeir eru vopnaðir.“[…] Að sögn Grímseyinga, sem sáu þá í gúmmíbátnum, voru þetta allt menn, sem meira minntu í útliti á saklausa æskumenn an aldnar stríðshetjur…“

Ameríska flugvélin sveimaði yfir gúmmíbátnum fram eftir degi, þar til skip kom með setuliðsmenn innanborðs sem handsömuðu Þjóðverjana og fluttu þá í land. Flugmennirnir Bethea og Holly voru heiðraðir fyrir afrek sín. Áhöfn þýsku Focke-Wulf vélarinnar, þeir Holtrup, Karte, Richter, Lehn, Teufel, Klinkman og Brand lifðu hildarleikinn af. Frá Íslandi voru þeir sendir í fangabúðir í Englandi.

„…Þó að loftorustan, sem hér var frá sagt, yrði sú eina að Grímseyingum ásjáandi, svo að mér væri kunnugt, var langt frá því, að hún yrði hið eina, sem minnti þá á styrjöldina. Oft voru herflugvélar á flugi nálægt eyjunni. Ekki sjaldan heyrðust drunur í fjarska. Má vera að nokkrum sinnum hafi verið um náttúrulegt þrumhljóð að ræða. En ég ætla, að oftar hafi þessi hávaði verið skotdrunur eða dunur frá sprengjum…“

Heimildir:

Sæmundur Dúason. (1971). Einu sinni var. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

https://stridsminjar.is/en/a-list-of-crash-sites-by-year/incidents-in-1943/109-fw-200-condor-north-of-grimsey-august-5-1943

Morgunblaðið, 11. ágúst 1943

Íslendingur, 13. ágúst 1943

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó