,,Það er óhætt að segja að þær áskoranir sem heilbrigðisþjónustan stendur frammi fyrir í dag séu mjög krefjandi. Hér er birtingarmyndin í megin þáttum þríþætt þ.e. að veita nauðsynlega sjúkrahúsþjónustu, að taka á móti þeim COVID-19 sjúklingum sem þurfa á sjúkrahúsvist að halda og að sjá til þess að mönnun og aðföng séu nægjanleg til að sinna þessum verkefnum,“ segir Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins, í grein sem hann birti á vef sjúkrahússins í gær.
,,Fyrsta COVID-19 smitið á Norðurlandi greindist 15. mars og fyrsta innlögn smitaðs einstaklings var 26. mars. Smit á Norðurlandi eystra eru nú orðin 37 og alls hafa 6 smitaðir lagst inn á covid deild sjúkrahússins. Frá því fyrsti starfsmaðurinn fór í sóttkví 29. febrúar hafa alls 32 starfsmenn verið í sóttkví og þar af 3 í einangrun.
Svo virðist sem COVID-19 faraldurinn á Norðurlandi sé allt að tveimur vikum seinna á ferðinni sé miðað við suðvesturhornið. Sá tími hefur nýst vel til undibúnings og skapað rými til að yfirfara og aðlaga þær lausnir sem þar hafa gefist vel í baráttunni við faraldurinn. Hvort heldur sem er innan sjúkrahússins eða skiptingu verka milli sjúkrahússins og annarra heilbrigðisstofnana.
Á mánudaginn verður covid göngudeild opnuð en hún mun taka á móti smituðum einstaklingum sem dvelja utan sjúkrahúss en þurfa á skoðun að halda. Vel hefur tekist að halda úti nauðsynlegri þjónustu og sjúkrahúsið er vel í stakk búið til að taka á móti COVID-19 sjúklingum. Mönnunarmál hafa enn sem komið er gengið upp m.a. með tilfærslu starfsmanna og þátttöku heilbrigðisstarfsfólks úr bakvarðasveitinni. Ljóst er að enn frekar reynir á mönnunarmálin á komandi dögum og ánægjulegt að finna að í þeim efnum liggur enginn á liði sínu.
Ég vil þakka þeim sjúklingum sem þurfa að bíða eftir að fá þjónustu fyrir biðlundina. Ég vil þakka skilning þeirra aðstandenda sem ekki geta heimsótt eða fylgt ástvinum sínum á sjúkrahúsið. Ég vil þakka starfsmönnum sem lagt hafa sig alla fram í að breyta starfsemi sjúkrahússins þannig að hægt sé að taka á móti og sinna COVID-19 smituðum einstaklingum ásamt því að halda úti annarri nauðsynlegri þjónustu. Ég vil þakka samfélaginu hlýhuginn, samstöðuna og stuðninginn sem birtist okkur í ótal myndum. Samstillt átak skilar okkur í mark. Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA – FRAMSÆKNI„
Bestu kveðjur og góða helgi.
Bjarni Jónasson
UMMÆLI