Það var í þessari ferð sem ég orti ljóðið Svalbarðseyri

Það var í þessari ferð sem ég orti ljóðið Svalbarðseyri

Í lok október árið 1992 héldu átta námsmenn í Reykjavík af stað norður yfir heiðar. Sjö konur og einn karlmaður – nemendur við Háskóla Íslands – sameinuðust í bíla og brunuðu til Akureyrar. Ætlunin var að starfa í viku eða svo við dagblaðið Dag, fara á stúfana á Akureyri og í nágrannabyggðarlögum og afla efnis fyrir blaðið. Kannski njóta og hafa gaman í leiðinni. Ferðin var hugsuð sem hluti af starfsnámi nemenda í Hagnýtri fjölmiðlun við HÍ þar sem áhersla skyldi lögð á undirstöðuatriði í greina- og fréttaskrifum.

Kennari hópsins var Sigrún Stefánsdóttir. Hún fylgdi nemendunum átta norður og útvegaði þeim jafnframt dvalarstað, sumarhús á Svalbarðseyri. Í samtali við Dag í október 1992 sagði Sigrún að ferðin norður væri leið til að kynna fjölmiðlun á landsbyggðinni en jafnframt væri hún mikilvæg fyrir nemendur til að kynnast betur.

Gerður Kristný var í hópi áttmenninganna sem kom til starfa á Degi haustið 1992. Grenndargralið hafði samband við hana og spurði út í fréttaskrifin og dvölina í heimabyggð. Einhver tíðindi hafa nú líklega orðið í sumarhúsinu á Svalbarðseyri, eða hvað? Aðspurð man Gerður Kristný ekki hvað var efst á baugi í norðlenskum fréttum á þessum tíma. Hún minnist hins vegar heimsóknar sem hún fór í til eins færasta listamanns þjóðarinnar eins og hún orðar það sjálf, viðtals sem birtist í helgarblaði Dags. Þá orti hún ljóð í ferðinni sem rataði í fyrstu ljóðabók hennar sem kom út árið 1994.

Ég kom með bekkjarsystkinum mínum í Hagnýtri fjölmiðlun í Háskóla Íslands til Akureyrar í þeim tilgangi að fá starfsþjálfun á Degi. Mig langaði að taka viðtal við Margréti Jónsdóttur leirlistarkonu, einn færasta listamann þjóðarinnar. Ég hafði lengi dáðst að verkum hennar og geri enn. Áður en við komum norður hafði ég þegar haft samband við hana og falast eftir viðtali og við komið okkur saman um tíma.  Ég vatt mér því í heimsókn á fyrsta degi og spjallaði við Margréti sem var skemmtileg og fróð að venju. Mér fannst það hljóta að vera dásamlegt að geta helgað sig listinni eins og hún og gert leirmuni sem sameinuðu bæði fegurð og notagildi. Ég lauk við viðtalið daginn eftir og hafði því nægan tíma til að vafra um fallegu Akureyri það sem eftir var dvalarinnar. Þar hef ég nú oft dvalið við störf eftir að ég ákvað sjálf að starfa eingöngu að listinni. Vitaskuld heimsæki ég þá gallerýið hennar Margrétar, fæ að skoða dýrðina og jafnvel bæta við mig grip í safnið.

Það var í þessari ferð sem ég orti ljóðið Svalbarðseyri sem birtist í fyrstu bókinni minni, ljóðabókinni Ísfrétt.

Svalbarðseyri

Skýin stinga við árum

og morgunninn greiðir úr myrkrinu

viti án varðar

vísar inn á öruggar eyrar

næsta dags

frostið fylgir í spor mín

niður í fjöru

klæðir mig úr kalinni hendi

héðan leggst ég til sunds

Heimild: Grenndargralið

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó