NTC

,,Það var einmitt á Akureyri sem þetta bévítans ananasmál byrjaði…“

Ég opnaði hurðina að Samkomuhúsinu og við mér blasti þessi kunnuglegi og virðulegi stigi, þakinn þessu rauða konunglega teppi og það hvarflaði að mér að hingað hafði ég ekki komið í mörg ár.
Það er frekar erfitt að lýsa tilfinningunni sem maður finnur þegar maður kemur inn í Samkomuhúsið. Þú gengur í áttina að salnum og færð þér sæti í kóngastólunum, eins og ég kallaði þá þegar ég var lítil og ert eitthvað svo spenntur. Það er líka eitthvað við þetta rauða efni sem lætur manni líða svo mikilvægum. Núna var ég líka mætt á 100 ára afmæli Leikfélags Akureyrar og fannst ég helvíti merkileg, sérstaklega þegar ég sá glitta í hausinn á forseta Íslands þremur röðum framar.


Selma Björnsdóttir, átrúnaðargoðið mitt í gamla daga, gengur inn á sviðið ásamt Bjarna Snæbjörnssyni. Án þess að segja orð byrja þau að syngja eitt af mínum uppáhalds: Snögglega Baldur úr söngleiknum Litlu Hryllingsbúðinni, sem var sýndur í Samkomuhúsinu árið 2006. Ein af fjölmörgum perlum LA á þessari síðustu öld.
Selma varð átrúnaðargoðið mitt aftur og Bjarni kom sér á vinsældarlistann líka.

Saga Jónsdóttir, leikkona og formaður afmælisnefndar steig næst á svið. Saga Jónsdóttir hefur verið með leikfélaginu í marga tugi ára og fagnar á á morgun 60 ára leikafmæli. Ég hugsaði með mér að ég mundi vilja verða svona flott kona þegar ég er orðin stór.
Hún veitti Haraldi Sigurðssyni sérstakan þakklætisvott, manni sem skrifaði sögu Leikfélags Akureyrar þegar það varð 75 ára og mætti á allar sýningar LA. Haraldur hlaut hátt og mikið lófatak og sagði nokkur vel valin orð, mörgum til mikillar skemmtunar. Hún endaði mál sitt með að kynna veislustjóra kvöldsins á svið en það voru þeir Vilhjálmur Bergmann Bragason, leikskáld og vandræðaskáld og Oddur Bjarni Þorkelsson, Ljótur hálfviti og prestur. Þessir grínistar… Oddur er sumsé í hljómsveitinni Ljótu hálfvitarnir og Vilhjálmur í dúettinum Vandræðaskáld. Þessir fyndnu og flottu menn sáu um að veislustýra kvöldinu með miklum prýðum, hlátri og snilld.

,,Það var einmitt á Akureyri sem þetta bévítans ananasmál byrjaði… og látum því ljúka nú“.

Svona hófust orð heiðursgestsins. Það var enginn annar en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem flutti ræðu um störf Leikfélagsins undanfarna öld og bjarta framtíð þess í framhaldinu. Hann var snöggur að ljúka ananasmálinu frá, eflaust er hann ekkert orðinn þreyttur á þeim bröndurum. Hann bar afmæliskveðjur frá Vigdísi Finnbogadóttur og sagðist sjálfur vonast til þess að geta komið oftar á sýningar hjá LA á næstu árum.

Stórleikkonan Sunna Borg ætlaði að trylla lýðinn með innkomu sinni í leikhússalinn þegar hún fylgdi fast á hæla forsetans. Atriðið sem hún lék var úr leikritinu BarPar, sem sýnt var í leikhúsinu árið 1994 þar sem Sunna og Þráinn Karlsson léku aðeins tvö saman 14 mismunandi hlutverk. Sunna Borg fagnaði 70 ára leikafmæli í fyrra, enda get ég ekki ímyndað mér betri stað fyrir þessa flottu konu en uppi á sviði.

Matthías Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar, tók næstur til máls. Það kom mér ánægjulega á óvart að hann var mjög skemmtilegur. Svo var ég einstaklega ánægð með það að hann sagði Akureyrarbæ þurfa að gefa meira fjármagn til listsköpunar og leiklistar. Hann bar það saman við Reykjavíkurborg þar sem mun meira magn er gefið til lista. Þá er bara að vona að hann haldi áfram að vinna í þeim bætingum.

Hundur í óskilum standa alltaf fyrir sínu og þar var engin undantekning í gær. Ég eyddi tímanum milli þess sem ég hló að velta fyrir mér hvernig það er mögulegt að spila á svona stórt hljóðfæri. Það gerist ekki meira thug en það.
Mér varð svo allri lokið þegar þeir tóku Erfiljóð, sem Hjörleifur segist ekki hafa fengið að birta í Morgunblaðinu þegar frændi hans lést. Ljóðið er eitt langt, geggjað rím sem maður skilur ekki alveg hvernig er hægt að muna, meðan Eiríkur spilar dramatískt undir á kontrabassann.

Næstir á svið voru goðsagnirnar Gestur Einar Jónasson og Aðalsteinn Bergdal, sem eiga mjög stóran þátt í sögu LA. Báðir hafa þeir leikið með félaginu í kringum 50 ár og þeir fóru alveg kostulega yfir þann tíma og alla þá sem störfuðu með þeim og gæddu leikhúsið lífi. Það var skemmtilegt að sjá þá félaga saman, hvernig þeir náðu til áhorfenda en létu það samt líta út fyrir að þeir væru bara að rifja upp gamla, góða tíma sem félagar.
Oddur Bjarni, annar veislustjóranna, fór síðan yfir þá sem áttu stóran þátt í sögu félagsins en eru látnir. Þar voru nokkur ódauðleg nöfn leiklistarinnar á Íslandi og fór það svo að allur salurinn stóð upp og vottaði þeim virðingu sína með góðu lófataki.

Saga Jónsdóttir og Sesselía Ólafsdóttir, leikkona og leikstjóri, stigu næstar á svið og tóku saman lagið: Framtíð mín, hún er glæst úr sýningunni og kabarettinum Ertu nú ánægð kerling? sem var sýnt árið 1974. Þær dömurnar fluttu lagið óaðfinnanlega og lagavalið var sérstaklega skemmtilegt að heyra í dag þar sem það sýndi svart á hvítu hversu langt við erum komin í kvenréttindabaráttunni.

Selma Björnsdóttir og Bjarni Snæbjörnsson tóku sviðið svo í lokin, í sitthvoru lagi, til þess að ljúka þessum magnaða afmælisfögnuði. Þetta var smá forsmekkur af því sem koma skal í haust þar sem þau, ásamt fleirum og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, munu setja upp sýningu þar sem þau flytja fjölmörg lög úr uppsetningum Leikfélags Akureyrar undanfarin 100 ár.

Kaffið vill þakka afmælisnefnd kærlega fyrir boðið og skemmtilega kvöldstund, ásamt því að óska félaginu innilega til hamingju með frábærlega unnin störf síðustu öldina. Til hamingju með daginn í gær og skál fyrir næstu 100 árum!

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó