NTC

Það væri miklu einfaldara ef ég myndi bara hverfa

Hákon Örn Hafþórsson skrifar:

Hegri

Það er það sem ég kýs að kalla veruna sem hefur svifið yfir mér síðan mér fannst ég þurfa hafa fyrir því að vera glaður. Fyrst tók maður gleði sem sjálfsögðum hlut, enda barn og þá kann maður fátt annað en að leika sér og það er gaman. Á einhverjum tímapunkti fannst mér samt rangt að vera leika mér og þá hófust niðurrifin.

Þessi hegri svífur alltaf yfir mér en undanfarið hefur mér tekist betur að beygja mig undan því þegar hann langar að gogga í mig. En því miður nær hann manni stundum og þá fer manni að kvíða að hann nái manni aftur.

Þessi djöfulsins hegri mun aldrei hverfa. Lengi hunsaði ég hann og leyfði honum að rífa mig niður í dýfur þar sem sjálfsálit mitt, sjálfstraust og sjálfsvirðing voru dregin í gegnum drulluna en ég hugsaði að ég þyrfti aldrei á neinni hjálp að halda. „Ég fer bara í ræktina og harka að mér“ hugsaði ég í mörg ár. Því miður ræður maður ekki við alla hluti. Ég stóð sjálfan mig að því að hugsa að börnin mín ættu skilið betri pabba, að vinir mínir ættu skilið betri vin og fjölskyldan mín ætti ekki að þurfa hafa áhyggjur af mér. Það væri miklu einfaldara ef ég myndi bara hverfa. Þá myndi þessi dofi hverfa með mér og enginn þyrfti að hugsa um það lengur. Það væri auðvelda leiðin gegnum lífið. En sem betur fer hef ég aldrei verið maður sem fer stuttar leiðir í lífinu.

Í vetur fór ég svo í fyrsta skipti til sála. Sáli staðfesti það sem mig hafði grunað frá því ég var unglingur. Hann greindi mig með kvíða og þunglyndi sökum kvíðans. Kvíðinn hafði fengið að mata þunglyndi mitt eins og ofdekrað barn. Það var stærsti, þurrasti og verst tuggði biti sem ég hef þurft að kyngja yfir ævina. En þá gerðist svolítið merkilegt, mér fór að líða betur. Og betur. Og betur.

Stundum horfi ég tilbaka og hugsa: „Bara ef ég væri ekki svona þungur eða nervus þá hefði ég gert þetta öðruvísi“. Ég óska þess oft að vera blindur svo að ég geti ekki séð á eftir neinu. En það er algjörlega tilgangslaust. Niðurrif munu aldrei hjálpa þér og ef einhverjum líður svona skal hann tala. Það þarf ekki endilega að vera sáli. Heldur getur einstaklingur sem þú treystir hjálpað þér meira en þig getur nokkurn tímann grunað bara með því að hlusta og taka utan um þig. Já, húðflúraði, skeggjaði rappapinn hann Konni þarf miklu fleiri knús en hann þorir að viðurkenna.

Ég skrifa þetta því ég er orðinn þreyttur á að segja alltaf „allt gott“ þegar einhver spyr hvað ég segi og innst inni langar mig að táröskra í kodda. Ég er orðinn þreyttur á að setja upp grímu og að láta eins og þessi helvítis hegri sé ekki þarna uppi, bíðandi eftir næsta tækifæri til að pikka í mig. Ég skrifa þetta því mig langar ekki lengur til að fela manninn sem ég er. Ég hef oft hugsað um að vilja fara héðan. En það yrði allt of einfalt.

Hegrinn mun alltaf svífa yfir mér. Hann mun alltaf vilja draga mig niður. En núna veit ég hvernig hann svífur og hvenær hann á það til að gera árás. Að vera meðvitaður um sjálfan sig er traustur lykill og þó ég hugsi stundum ennþá að mig langi til að fara héðan þá veit ég að hegrinn er að stríða mér. Í dag leyfi ég honum að sitja á hægri öxlinni minni, þá goggar hann minna í mig.

Ykkar einlægur

Conga

 

 

Sambíó

UMMÆLI