Íslenska landsliðið á leik kl.16.45 í dag gegn Makedóníu á heimsmeistaramótinu í handbolta. Ísland er með 3 stig fyrir leikinn og nægir jafntefli til að komast áfram í 16-liða úrslit. Kaffið heyrði hljóðið í Guðmundi Hólmari Helgasyni, landsliðsmanni og leikmanni Cesson Rennes í Frakklandi fyrir leikinn.
,,Þetta verkefni leggst mjög vel í mig. Það var ánægjulegt að sjá Spánverja leggja Makedónía í gær þannig nú er það alfarið í okkar höndum að tryggja okkur áfram í 16-liða úrslit.“
,,Það þarf margt að ganga upp svo við getum lagt Makedóna. Fyrst og fremst þurfum við að ná upp góðri og hreyfanlegri vörn þar sem þeir spila mjög oft með 7 sóknarmenn. Ef vörnin er góð fylgja markmennirnir með og þá eru auknir möguleikar á að við náum að refsa þeim með ódýrum hraðaupphlaupsmörkum. Fram á við þurfum við síðan að vera agaðir og ná upp góðu tempói þar sem þeir eru með góða og þétta vörn,“ segir Guðmundur.
Aðspurður um framtíðina er Guðmundur bjartsýnn; ,,Ég sé framtíðina bara nokkuð bjarta fyrir mér, það er hellingur af ungum efnilegum strákum að koma upp í handboltanum. Ef þeir leikmenn halda rétt á spilunum, sem og HSÍ, þá sé ég því ekkert til fyrirstöðu að Ísland verði áfram með lið sem keppir reglulega á stórmótum.“
UMMÆLI