Það er fjölbreytnin sem gildir

Það er fjölbreytnin sem gildir

Gauti Jóhannesson skrifar:

Á liðnum árum hefur verið ráðist í umtalsverðar fjárfestingar í atvinnulífinu um allt land. Norður- og Austurland hafa ekki farið varhluta af þeirri þróun. Hvort sem litið er til ferðaþjónustu, sjávarútvegs eða fiskeldis má finna fjölmörg dæmi um metnaðarfullar fjárfestingar í skipum, fasteignum og fólki. Fjárfestingar í nýjum gistiheimilum, baðhúsum, fiskiskipum, vinnslulínum og eldiskvíum fela í sér trú á byggðafestu og blómlega framtíð landsbyggðanna.

Nú þegar aflétting sóttvarnaaðgerða er handan við hornið og bólusetning eru komin vel á veg er næsta verkefni að reisa við efnahagslífið. Þar munu þessar fjárfestingar skipta sköpum og gera okkur kleift að rétta við skútuna fyrr en ella og sækja fram. Hlutverk stjórnvalda í að tryggja sem kröftugasta viðspyrnu felst í að ryðja úr vegi hindrunum sem kunna að standa í vegi fyrir verðmætasköpun hvort heldur hjá rótgrónum fyrirtækjum eða fólki með hugmyndir sem eiga enn eftir að verða að veruleika.

Nýlegar fjárfestingar í skipum og vinnslubúnaði eru til marks um  framsýn sjávarútvegs- og hátæknifyrirtæki sem sameinað hafa krafta sína til að ná sem mestum verðmætum úr sjávarafurðunum. Gjöful fiskimið, hágæða afurðir, sjálfbærar fiskveiðar, smæð landsins, reynsla og hugmyndaauðgi hafa gert okkur kleift að þróa og framleiða vinnslutækni á heimsmælikvarða. Á meðan vöxtur sjávarútvegsins er bundinn við magn, gæði og nýtingu sjávarafurðanna þá hafa hátæknifyrirtækin nýtt sér nánast ótakmörkuð vaxtatækifæri langt út fyrir landsteinanna eins og dæmin sanna.

Sömu sögu má segja í ferðaþjónustunni. Í hinu víðfeðma Norðausturkjördæmi hefði hæglega verið hægt að reka ferðaþjónustu sem byggði fyrst og fremst á nýtingu þekktra ferðamannastaða og hefðbundinnar afþreyingar. Þess í stað sáu ferðaþjónusturekendur tækifæri til að byggja upp veitingastaði, afþreyingarfyrirtæki og gistiheimili um gjörvallt kjördæmið og byggja þannig upp nýja eftirsóknarverða áfangastaði. Með þessu móti hefur tekist að dreifa ferðamönnum betur um landið og leysa úr læðingi ótal tækifæri sem landsbyggðin hefur uppá að bjóða. Enn er verk að vinna varðandi fjölgun fluggátta inn i landið og þar skiptir máli að markvisst sé sótt fram enda mikið svigrúm ónýtt á þeim vettvangi

Í liðinni viku birtist svo viðtal við forstjóra Landsvirkjunnar þar sem hann greindi frá aukinni eftirspurn eftir raforku og að nýir kaupendur hefðu áhuga  á uppbyggingu græns iðnaðar sem byggir á nýtingu sjálfbærra, endurnýjanlegra og umhverfisvænna orkukosta. Fyrir rúmri hálfri öld báru Íslendingar gæfu til að hefja vegferð umhverfisvænna orkuskipta með uppbyggingu jarðvarma- og vatnsaflsvirkjana. Við getum þakkað þeim framsýnu hugsuðum sem hófu þetta ferli fyrir þeirra framlag. Það hefur gert Ísland að eftirsóknarverðari stað fyrir uppbyggingu umhverfisvæns iðnaðar og reynst mikilvægt innlegg í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Árangur Íslands í þessum undirstöðuatvinnugreinum er ekki sjálfgefinn heldur ávöxtur þrotlausrar vinnu fjölda fólks um allt land í áraraðir. Það er með sömu eljusemi sem Íslandi mun takast að komast úr kófinu. Á næstu misserum verður það hlutverk stjórnvalda að ryðja brautina og hvetja til enn frekari fjárfestinga og verðmætasköpunar. Þá er það fjölbreytnin sem gildir.

Höfundur, er forseti sveitarstjórnar Múlaþings og býður sig fram í oddvitasæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar árið 2021.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó