Menningarfélag Akureyrar telur að Akureyri eigi fullt erindi til þess að bera nafnbótina menningarhöfuðborg Evrópu. Menningarfélagið hvetur bæjaryfirvöld til þess að stefna að því árið 2030. Þetta kemur fram á vef RÚV í dag.
Á hverju ári útnefnir Evrópusambandið tvær borgir eða bæi í Evrópu sem menningarhöfuðborg Evrópu. Framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar, Þuríður Helga Kristjánsdóttir, telur að Akureyri geti fyllilega staðið undir nafnbótinni og eigi að setja stefnuna á að verða gjaldgengur umsækjandi.
„Við lítum á þetta sem ákveðið tækifæri fyrir Akureyri, bæði til þess að lyfta upp menningarlífinu og sýna alla þá starfsemi sem fer hér fram og þá atvinnumennsku sem á sér stað í menningarmálum. Tilgangurinn sé þó einnig að komast í samband og samvinnu við fólk sem starfar við menningarmál í Evrópu og líta á þessa nafnbót og sem því fylgir sem tækifæri til framþróunar í menningarmálum,“ segir Þuríður í samtali við fréttastofu RÚV en umfjöllun RÚV má lesa í heild sinni með því að smella hér.
UMMÆLI