Á fundi bæjarstjórnar þann 6. febrúar síðastliðinn var lögð fram samþykkt skipulagsráðs um að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Nonnahaga og Margrétarhaga í Naustahverfi. Tillagan gerir m.a. ráð fyrir að einbýlishúsalóðunum við Margrétarhaga 14-18 og við Nonnahaga 6-10 verði breytt í raðhúsalóðir. Lóðir við Nonnahaga 1-3 verða sameinaðar í fjölbýlishúsalóð fyrir þjónustukjarna fyrir fatlaða og á Nonnahaga 5 verður heimilt að hafa þrjú lítil íbúðarhús. Lóðir nr. 7-21 við Nonnahaga minnka og fjölgar þar um eina einbýlishúsalóð.
Með þessu nýja skipulagi stendur sumsé til að setja þjónustukjarna fyrir fatlaða og smáhúsaþyrpingu fyrir fólk með fjölþættan vanda, s.s. vímuefna- og áfengisvanda. Íbúar hverfisins hafa opinberlega lýst yfir áhyggjum yfir tillögunni þar sem þau telja slíkan kjarna ekki eiga heima í hverfinu sem er „fjölskyldu- og barnvænt hverfi“.
Meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins sem má lesa í heild sinni hér:
Á fundi bæjarstjórnar 6. febrúar sl. var lögð fram samþykkt skipulagsráðs um að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Nonnahaga og Margrétarhaga. Forsaga málsins er að mikil eftirspurn hefur verið eftir raðhúsum í Hagahverfihverfinu en minni ásókn í einbýlishúsalóðir en spáð hafði verið. Einnig óskaði annars vegar fjölskyldusvið og hins vegar búsetusvið eftir því að fá reit úthlutaðan.
Á seinni stigum kom fram ósk um að innan reitsins væri skoðaður sá möguleiki að komið yrði fyrir íbúðareiningum sem ætlaðir væru skjólstæðingum fjölskyldusviðs og flokkast utan hefðbundinna húsnæðisúrræða. Hönnuður deiliskipulags Hagahverfisins fór yfir hugmyndir skipulagsráðs og óskir fjölskyldusviðs og lagði fram tillögu að breytingu sem skipulagsráð samþykkti að auglýsa til athugasemda og bæjarstjórn staðfesti á fundi sínum 6. febrúar. Auglýsingaferlið er 6 vikur, á þeim tíma gefst íbúum tækifæri til að koma með ábendingar og athugasemdir.
Við undirrituð höfum hvatt fólk til að senda inn athugasemdir en skipulagsráð tekur svo afstöðu til þeirra að auglýsingatíma liðnum. Málið verður svo aftur lagt fyrir til endanlegrar ákvörðunar bæjarstjórnar. Það ber að hafa í huga að deiliskipulag getur tekið breytingum enda ekki meitlað í stein. Skipulag þróast samhliða byggð og þeirri þjónustu sem þarf að veita.
Það er mat okkar undirritaðra að ekki sé hægt að setja húsnæðisúrræði eins og smáhýsi inn á þegar deiliskipulagt svæði sem er í fullri uppbyggingu. Það er hinsvegar okkar mat að þjónustukjarni fyrir einstaklinga með fötlun eigi eftir að sóma sér vel á fyrirhuguðum stað enda eiginlegur hluti af hverfinu og fordæmi fyrir því víða í bænum. Síðustu daga hefur verið umræða á samfélagsmiðlum um breytingar á skipulagi Hagahverfis.
Við hvetjum alla sem skoðun hafa á málinu að koma henni á framfæri við skipulagssvið Akureyrarbæjar áður en auglýsingarfrestur rennur út. Athugasemdir sendist á netfangið skipulagssvid@akureyri.is
Ingibjörg Ólöf Isaksen, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Silja Dögg Baldursdóttir, Matthías Rögnvaldsson Dagbjört Pálsdóttir, Sigríður Huld Jónsdóttir bæjarfulltrúar.
Sjá einnig:
UMMÆLI