Hinrik Hólmfríðarson Ólason, 27 ára Akureyringur, er staddur í Kína um þessar mundir að taka þátt í ræðu- og hæfileikakeppni fyrir kínverskumælandi útlendinga. Keppnin sem heitir „Chinese Bridge“ eða Kínverska brúin hefur verið haldin árlega frá árinu 2002 og hafa yfir 600 keppendur frá 50 löndum tekið þátt.
Hinrik eyddi einu ári í Tævan árið 2011 eftir að hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri. Þar lærði hann kínversku og segist hann meira að segja enn tala hana með tævönskum hreim. Hinrik talar einnig tælensku en hann eyddi einu ári í Tælandi frá 2007-2008.
„Ég fékk semsagt skólastyrk því að tævönsk stjórnvöld gefa út skólastyrki til að draga athygli að landinu og kynna það,“ segir Hinrik í spjalli við Kaffið.
„Þetta er svona lítil eyja af óstýrlátu fólki sem flúði frá meginlandinu í nokkrum bylgjum, sjóræningjar og bændur
svona eins og Íslendingar. Svo sprakk allt í loft upp eftir seinni heimstyrjöldina og þjóðernisflokkurinn kínverski flúði þangað og setti upp útlagastjórn meðan kommúnistar tóku yfir Kína. Bandaríkjamenn vernduðu svo Tævana eftir að hafa fengið að hafa aðstöðu þar í Kóreustríðinu og þar af leiðandi er Tævan sjálfstætt land í dag.“
Hinrik kláraði BA-gráðu í kínversku við Háskóla Íslands eftir dvöl sína í Tævan. Það var kínverskudeild Háskólans sem bað hann um að taka þátt í Kínversku brúnni fyrir þeirra hönd og hann ákvað að stökkva á það tækifæri. Hinrik er nú staddur í Peking þar sem keppnin fer fram og verður þar næstu tvær vikurnar.
Ekki er hægt að komast á Facebook í Kína en það verður hægt að fylgjast með Hinrik í gegnum snjallsímaforritið WeChat með því að skanna merkið hér að neðan í símann sinn. Hér að neðan má einnig sjá myndband úr keppninni Kínverska brúin.
UMMÆLI