NTC

Takk Akureyri – barnvænt sveitarfélagKatrín og dóttir hennar Elín Karlotta sem verður átta ára í október.

Takk Akureyri – barnvænt sveitarfélag

Sem betur fer var þetta sumar ekki eins og það síðasta. Í sumar hóf Sumarskólinn störf á Akureyri þar sem öllum börnum á Akureyri á aldrinum 6-10 ára var boðið að taka þátt í fjölbreyttu og skemmtilegu frístundarstarfi undir faglegri leiðslu fagaðila. Auðvitað fengu þau heitan rétt í hádeginu og gátu sett saman stundarskrá eftir sínu höfði. Þannig gat mín sjö ára stelpa prófað hestamennsku, skauta, frjálsar íþróttir, myndlist og leiklist. Við þurftum ekki að hlera vinina hvaða námskeið þeir ætluðu að sækja, þurftum ekki að spá í hvort við hefðum efni á öllum þessum námskeiðum og heldur ekki að púsla saman skutli með aðkomu allra í fjölskyldunni þar sem að skólafrí eru jú mun lengri en venjulegt vinnandi fólk hefur rétt á í orlof. Svo ekki sé minnst á að auðvitað vorum við ekki tilneydd til að vera saman í fríi akkúrat þegar leikskóli yngra barnsins lokaði, heldur þegar okkur hentaði. Nei, þetta er bara allt annar veruleiki og svo yndislega stresslaus*. Í fyrra tapaði ég sko vitinu.

Hvað er að frétta Akureyri? Sjáum við fyrri tíð í rósarauðum gleraugum þar sem öll börn voru bara upp á sig sjálf komin og sjálfum sér nóg. Erum við sammála um það að það sé börnunum okkar fyrir bestu að vera ein heima meirihluta sumars? Er ásættanlegt að aðeins efnaðir foreldrar hafi efni á misdýrum námskeiðum? Í sannleika sagt veit ég um foreldra sem komu sér upp vefmyndavél til að vera viss um að barnið færi sér ekki að voða eitt heima – mögulega var vefmyndavélin ódýrari en pössun eða námskeið.

Koma svo Akureyri. Ef við ætlum að fjölga fólki í þessum bæ þarf að taka höndum saman og koma þessum sumarskóla á laggirnar – nú eða einhverju svipuðu. Við værum ekki að finna upp hjólið því annarsstaðar á landinu lenda foreldrar ungra barna ekki í þessu brasi ár eftir ár. Svo ekki sé minnst á að færa tómstundir og íþróttir á dagvinnutíma foreldra svo hægt sé að tala um samfelldan dag hjá börnum án þaulskipulagðra skutláætlana foreldra sem á þessum síðustu og verstu þurfa að reiða sig á sveigjanleika og velvilja vinnuveitenda.

Kannski er ekki gert ráð fyrir að báðir foreldrar séu útivinnandi á Akureyri. Og hér er heldur enginn einstæður.

*Það skal tekið fram að hér er skrifað í algeri kaldhæðni og ekkert í þessari málsgrein á við rök að styðjast nema þá að stelpan mín er sjö ára – og já, ég missti vitið, en þar lá fleira að baki.

Katrín Árnadóttir, gift móðir á Brekkunni

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó