Framsókn

Taka 3: Orðin sem eru bara notuð á NorðurlandiMynd: Jónatan Friðriksson/Kaffid.is.

Taka 3: Orðin sem eru bara notuð á Norðurlandi

Kaffið heldur áfram að taka saman þau orð í íslensku máli sem eru öðruvísi eftir því í hvaða póstnúmeri þú ert í. Það er ekki ósennilegt að lokum tali landsmenn ekki íslensku heldur norðlensku, vestfirsku, sunnlensku o.s.fv. með þessu áframhaldi.

Okkur þykir einstaklega skemmtilegt að fylgjast með hörðum, reiðum og mismunandi viðbrögðum við þessum listum og höldum því ótrauð áfram þar til við verðum stoppuð af. Já, eða við náum að lista öll orðin.

Þetta er þriðji en örugglega ekki síðasti listinn sem við gerum af þessu tagi og erum alltaf til í ábendingar ef það eru einhver orð sem þér finnst eiga heima á lista sem þessum. Þú getur sent okkur línu með því að ýta hér.

En hér koma þau, í þriðja sinn! Þessi orð sem við Akureyringar og nærsveitungar segjum sem höfuðborgarbúar kannast ekki við.

Haldapoki – Poki með höldum
Þessu trúði ég ekki fyrst þegar ég heyrði þetta og fór því í formlega könnun á höfuðborgarsvæðinu. Ég hafði vissulega ekki samband við Gallup og fór lengra með þetta en svo virðist sem höfuðborgarbúar fari í matvörubúðina og kaupi þar poka með höldum… ekki haldapoka. Nú erum við bara að tala um almenna skynsemi að sameina orðin hélt ég en við erum þá bara einu skrefi á undan á Akureyri.

Stakkur – Jakki?
Svo virðist sem borgarbúar geri ekki greinarmun á einangrun jakkanna sem þeir klæðast. Það gerum við á Akureyri. Þunnan, léttan jakka köllum við stakk. Stakkur er ekki fáanlegur á höfuðborgarsvæðinu.

Gúmmí – Hlaup
Akureyringur: „Má bjóða þér gúmmí?“
Fæddur og uppalinn Reykvíkingur: „Hvað er gúmmí?“
Reykvíkingar borða hlaup en ekki gúmmí. Gúmmí er talið álíka jafn sérkennilegt og að segja moli.

Eyrnaskjól – Eyrnaband
Þetta er kannski ekki svo alvarlegur greinarmunur en það er óþarfi að þykjast ekki skilja hvað eyrnaskjól þýðir Reykjavík. Þetta er skjól fyrir eyrun… eyrnaskjól. Eyrnaband er aðeins of víð skilgreining. Nær það yfir eyrun? Er það þunnt? Þykkt? Er í alvörunni skjól af því?
Þetta þurfum við að vita á Norðurlandi.

Upptökupróf – Endurtekningarpróf
Það fylgir ekki sögunni af hverju upptökupróf kom upp í umræðuna en það kom upp. Flatlendisbúar ráku upp stór augu við þessu orði. Upptökupróf eru bara tekin fyrir norðan skilst mér.

Bekkjaría og drusla – Tuska
Nú verð ég að standa með sunnlendingunum í þessu. Ég hef hvorki notað bekkjaría né drusla þegar ég tala um borðtusku en þessi orð hafa ítrekað komið upp þegar við birtum síðustu tvo orðalista svo við gerum ráð fyrir því að margir Akureyringar noti þessi orð.

Stíbbar – Stígvél
Akureyringar eru það töff að þeir eiga til gælunafn fyrir stígvél. Það þykir ekki kúl að segja stíbbar á höfuðborgarsvæðinu.

Hjól eru eiginlega liður út af fyrir sig. Svo virðist sem að Akureyri og nágrenni sé með öðruvísi hjól en sunnlendingar.

Skermur – Bretti
Sunnlendingar kannast ekki við að það sé skermur á hjólinu þeirra. Þeir tala einfaldlega um það sem bretti.

Hnakkur – Sæti
Svo virðist sem það sé heldur ekki hnakkur á sunnlenskum hjólum heldur bara sæti. Spurning hvort að sætin þeirra séu þægilegri en hnakkarnir okkar? Maður spyr sig.

Veist þú um fleiri orð sem eiga heima á listanum? Sendu okkur línu HÉR.

SJÁ EINNIG:

VG

UMMÆLI