Taka 2: Orðin sem eru bara notuð á Norðurlandi

Taka 2: Orðin sem eru bara notuð á Norðurlandi

Það er orðið nokkuð ljóst að þó íslenskan sé töluð allsstaðar á landinu þá er mállýskan nokkuð öðruvísi eftir því frá hvaða landshlutum fólk kemur. Kaffið hefur áður tekið saman lista yfir orð sem eru aðeins notuð af Akureyringum og Norðlendingum og fólk af höfuðborgarsvæðinu kannast ekki við. Ljóst er að listinn var alls ekki tæmandi og því kemur nú listi nr. 2: Enn fleiri orð sem eru bara notuð á Norðurlandi.

1.Pissa á sig – Pissa í sig
Svo virðist sem Reykvíkingar hafi fundið upp leið til að pissa í sig, sem ég hef haldið alla tíð að sé einstaklega erfitt, ef ekki ómögulegt. Hins vegar ef svo óheppilega vill til að Norðlendingar ná ekki á klósettið í tæka tíð þá pissa þeir á sig.

2. Flögur – Snakk
Orðið snakk er þekkt um land allt og eflaust einhverjir Akureyringar sem nota það. Hins vegar er það að mestu óþekkt að nota orðið flögur fyrir kartöfluflögur í daglegu tali í Reykjavík.

3. Eldhúsbekkur – Eldhúsborð
Á Norðurlandi eru eldhús með eldhúsbekk, þar sem vaskurinn er og vinnupláss til að útbúa matinn o.s.fv. Síðan er eldhúsborð þar sem maturinn er borðaður. Í Reykjavík er þetta einn og sami hluturinn. Eldhúsbekkur er víst ekki til í orðaforða sunnlendinga. Hvernig gerðist þetta bara?

4. Hringlótt – Kringlótt
Á Akureyri og víðar eru hlutir hringlóttir en fyrir sunnan eru þeir kringlóttir. Það er nokkuð forvitnilegt að föst form breytist milli landshluta, orðin eru væntanlega dregin af orðunum hringur og… kringur?

5. Ristavél – Brauðrist
Það er miklu öflugra að rista brauðið sitt í ristavélinni heldur en í brauðristinni.

6. Eyða – Gat
Námsmenn á Norðurlandi tala um að vera í eyðu þegar það er frí á miðjum degi í stundatöflunni í skólanum meðan sunnlenskir námsmenn eru í gati.

7. Frostpinni  – Klaki
Þegar Akureyringar fá sér ís þá fá þeir sér frostpinna eða íspinna. Sunnlendingar fá sér hins vegar klaka á heitum sumardegi. Það er skiljanlegt að þeir noti ekki sérstakt orð fyrir frostpinna þar sem sumardagar þar syðra eru mun færri en þekkist á Norðurlandi.

8. Hrækja – Tuffa
Það vita allir að það er töff að hrækja. Það er ótrúlega hallærislegt að tuffa.

9. Vegasalt – Ramba á rambeltunni
Það allra fáránlegasta sem ég hef heyrt hingað til er hins vegar alla leið úr Hafnafirði. Hafnfirðingar vega nefnilega ekki salt eins og aðrir landsmenn heldur ramba þeir á rambeltunni. Eitt er víst að ég ætla að gera mér ferð til Hafnafjarðar á leikvöll þar og ramba aðeins.
Uppfært: Bolvíkingar ramba víst líka meðan Ísfirðingar vippa á vippunni.

10. Þoturass – Rassaþota
Þoturass er þekkt fyrirbrigði á Akureyri en það er ekki svo á sunnlendinu. Rassaþota? Það hljómar eins og eitthvað afbrigðilegt kynlífstæki eða mjög háþróaður þoturass.

Sjá einnig:

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó