Tæring hefur göngu sína á ný á HælinuLjósmynd: María Kjartansdóttir

Tæring hefur göngu sína á ný á Hælinu

Sviðslistaverkið Tæring hefur göngu sína á ný á Hælinu í haust. Örfáar aukasýningar verða í ágúst og september. Einungis 10 áhorfendur komast fyrir á hverri sýningu, grímuskylda verður á svæðinu og sóttvarnir verða í hávegum hafðar.

„Í fyrrahaust urðum við að hætta sýningum fyrir fullu húsi vegna covid.  Núna gefst fólki tækifæri á ný til að upplifa þessa sterku sýningu sem óvart talaði beint inn í heimsfaraldurinn,“ segir María Pálsdóttir.

Tæring er innblásin af sögu berklasjúklinga sem þar dvöldu á síðustu öld og var frumsýnt haustið 2020. Verkið er samsköpun allra þátttakenda og er sérstaklega unnið inn í sýningarrýmið þar sem leiknum senum er blandað við vídeóverk og hljóðverk og einnig fara einhver atriði fram utandyra sem áhorfendur sjá út um glugga.

Þessi fallega og hjartnæmu sýning er byggð á sögum berklasjúklinga. Sýningin hlaut fádæma góða dóma í fyrrahaust en hér að neðan má sjá nokkur ummæli um sýninguna.

„Tæring er einstakt tækifæri til að komast í návígi við sögu sem margir eru búnir að gleyma en er skelfilega nálæg okkur í tíma.  Síðustu augnablik sýningarinnar nísta inn að beini, þannig að lungun herpast saman. Áhorfendur horfa á úr fjarska, núna hinum megin við glerið.Seiðmögnuð staðsetning og ljúfsárar svipmyndir smjúga inn að lungum.“

-Sigríður Jónsdóttir Fréttablaðið


„Þetta var í rauninni ólýsanleg upplifun. Mér leið eins og ég væri draugur, ósýnileg vofa þar sem ég leið milli vistarveranna og tók inn öll skilaboðin sem gengu á mér, miskunnarlaust. Lengi tókst mér að hemja tilfinningarnar en það var erfitt að gráta ekki örlög ungu móðurinnar (Birna Pétursdóttir, frábær) undir lokin. Árni Beinteinn, Sjöfn Snorradóttir og Stefán Guðlaugsson snurtu mann líka djúpt með innlifuðum leik sínum og Kolbrún Lilja var ósérhlífnin og skörungsskapurinn uppmálaður í hlutverki Vilborgar. Búningar Auðar Aspar Guðmundsdóttur voru vel hugsaðir og leikmyndin sannfærandi. Vídeóverk Maríu Kjartansdóttur með fleiri leikurum víkkuðu og breikkuðu verkið enda smekklega notuð til að fjölga þátttakendum og stækka þröngt rýmið.“

-Silja Aðalsteinsdóttir Tímarit Máls og Menningar


„María Pálsdóttir og allt hennar teymi á hrós skilið fyrir framtakið. Það er yndislegt að sjá þessa stórmerkilegu sögu öðlast líf á staðnum þar sem rætur hennar liggja.“

-Brynjar Karl Óttarsson Kristneshæli – saga berklasjúklinga


„Mér fannst mjög vel farið með þetta. Þetta gefur mikið tilefni til drama en það var samt svo mikil fegurð. Sem hljómar skrýtilega í þessu samhengi. Þessi upplifun var svo mögnuð að mínu viti. Það var dásamlegt að taka þátt í þessu. Virkilega vel gert.“

-Rósa Júlíusdóttur Lestarklefinn

VG

UMMÆLI