Tæplega 1100 nemendur útskrifuðust á Norðurlandi á framhalds- og háskólastigi

Aðsókn í nám á Norðurlandi alltaf að aukast

Framhaldsmenntun á Norðurlandi hefur sjaldan verið jafn fjölbreytt og vinsæl og í ár en tæplega 600 nemendur útskrifuðust á dögunum úr framhaldsnámi og hátt í 500 nemendur á háskólastigi. Aðsókn í skóla á Norðurlandi eykst sífellt en t.a.m. var 30% aukning í umsóknum Háskólans á Akureyri. Það er ánægjulegt að sjá menntamál blómstra í norðrinu en með aukinni aðsókn er mikil þörf á auknu fjármagni frá ríkinu til skólanna.

Tuttugu nemendur brautskráðust af fisktæknibraut í maí.

Tuttugu nemendur brautskráðir af fisktæknibraut í fyrsta skiptið
Menntaskólinn á Tröllaskaga brautskráði fjörutíu og fimm nemendur þann 19. maí sl. en stúdentar hafa aldrei verið fleiri frá upphafi. Mikil fjölbreytni einkenndi hópinn en þarna voru einstaklingar frá mörgum þjóðríkjum og á mismunandi aldri. Þetta var sextánda brautskráning skólans og að þessu sinni voru tuttugu nemendur sem brautskráðust eftir tveggja ára nám á fisktæknibraut, en þetta er í fyrsta skipti sem nemendur ljúka námi frá þeirri braut. Námið er í samstarfi SÍMEY, Fisktækniskóla Íslands og Menntaskólans á Tröllaskaga.

Hæsta einkunn sem gefin hefur verið í framhaldsskólanum á Laugum
Framhaldsskólinn á Laugum útskrifaði tuttugu og einn nýstúdent þann 19. maí sl. við hátíðlega athöfn. Erla Ingileif Harðardóttir frá Einarsstöðum í Reykjadal brautskráðist með hæstu einkunn sem gefin hefur verið á stúdentsprófi frá skólanum og sló þar með 25 ára gamalt met núverandi skólameistara, Sigurbjörns Árna Arngrímssonar, með einkunnina 9.51. Þetta var jafnframt í 26. skipti sem skólinn útskrifar stúdenta.

Framhaldsskólinn á Laugum útskrifaði 21 nýstúdent í maí.

Tæplega 300 stúdentar útskrifaðir frá VMA
Verkmenntaskólinn á Akureyri útskrifaði 153 nemendur frá skólanum þann 26. maí sl. Þá útskrifuðust margir nemendur með tvö og jafnvel þrjú prófskírteini en það skýrist af því að töluverður hópur nemenda útskrifaðist af fleiri en einni námsbraut. Áfangakerfið í skólanum býður upp á það að nemendur geti sett nám sitt saman á fjölbreyttan hátt sem margir útskriftarnemar virðast hafa nýtt sér. Þess má geta að alls útskrifaði skólinn 253 nemendur á skólaárinu, en 100 nemendur voru útskrifaðir í desember.

Útskriftarnemar VMA í lok maí.

Tæplega 200 stúdentar útskrifaðir frá MA
Þann 17. júní voru 164 nýstúdentar útskrifaðir frá Menntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í Íþróttahöllinni á Akureyri en útskrift skólans er ævinlega haldin á þjóðhátíðardeginum. Þann 16. júní var hin árlega júbilantahátíð skólans haldin þar sem ævinlega koma saman stúdentar úr afmælisárgöngum, allt frá 1 árs upp í 70 eða 80 ára stúdentar, og rifja upp gamla tíma. Ræður frá fulltrúum hvers afmælisárgangs eru svo fluttar við útskriftarathöfnina 17. júní. Allt fór þetta skemmtilega fram og endaði með marseringu nýstúdenta með hvítu kollana í miðbæ Akureyrar rétt fyrir miðnætti.

164 nýstúdentar voru brautskráðir 17. júní frá MA.

46 útskrifaðir frá Háskólanum á Hólum 
Brautskráning frá Háskólanum á Hólum fór fram föstudaginn 8. júní sl. Þar eru fjölbreyttar námsleiðir í boði en frá Hestafræðideild voru sautján nemendur brautskráðir með BS-próf í reiðmennsku og reiðkennslu. Einn nemandi útskrifaðist með diplómu í fiskeldisfræði, ellefu nemendur með diplómu í viðburðarstjórnun, sautján nemendur með BA-gráðu í ferðamálafræði og einn með MA-gráðu í sömu grein.

112 nemendur útskrifaðir frá Símey

Það voru 112 nemendur sem útskrifuðust úr fjölbreyttum námsleiðum og tveimur raunfærnimatsverkefnum á útskriftarhátíð Símey, Símenntunarmiðstöðvar Akureyrar, þann 7. júní sl. Úr vottuðu námi brautskráðust nemendur úr opnum smiðjum FABLab, málmsuðu, listasmiðju málun, teikningu, textíl, „Help Start“ enskunámi, sölu-, markaðs og rekstrarnámi, leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú, félagsliðabrú og bókhaldsnámi (í samvinnu við Tölvufræðsluna á Akureyri). Einnig luku nemendur raunfærnimati í fisktækni (fiskvinnsla og veiðar) og iðngreinum í samstarfi við Menntaskólann á Tröllaskaga.

112 nemendur brautskráðust frá Símey.

4.700 manns nýttu sér þjónustu Símeyjar
Símey er nú á sínu átjánda starfsári en á síðasta ári voru þátttakendur eða þeir sem nýttu sér þjónustu Símeyjar um 4.700 talsins. Starfsmenn Símey eru að jafnaði tólf og fyrir miðstöðina vinna allt að 140 verktakar í skemmri eða lengri tíma. Símey býður upp á gríðarlega fjölbreyttar námsleiðar og hefur sett sér sérstaklega markmið að ná til þeirra sem ekki hafa lokið formlegu námi með framhaldsfræðslu. „Allt hefur þetta þann tilgang að auka möguleika einstaklinganna hvort sem það er til hækkunar menntunarstigs eða aukinnar hæfniuppbyggingar,“ segir Valgeir Magnússon, framkvæmdarstjóri Símeyjar.

50 mismunandi námsleiðir í boði
Á árinu 2018 eru í boði allt að 50 námsleiðir af ólíkum toga, allt frá 40 klst. námskeiðum upp í tveggja ára starfsnám. Raunfærnimat í iðngreinum í samstarfi við IÐUNA fræðslusetur er ævinlega í boði og nær til flestra iðngreina. „Einnig er hægt að sækja tveggja ára starfsnám og útskrifast með starfsheitið leikskólaliði, stuðningsfulltrúi eða félagsliði. Þess ber að geta að allt nám innan framhaldsfræðslunnar er niðurgreitt sem nemur að 90%,“ segir Valgeir.

Fullorðinsfræðsla fatlaðra 
SÍMEY hefur lengi boðið upp á nám af ýmsum toga fyrir fatlað fólk í samvinnu við Fjölmennt – símenntunar- og þekkingarmiðstöð í Reykjavík, sem er sjálfseignarstofnun og fær fjármagn á fjárlögum hvers árs. Fullorðinsfræðsla fatlaðra er afar fjölbreytt og tekur til fólks með þroskahömlun og einnig nær hún til geðfatlaðra og Símey hefur átt farsælt samstarf við Grófina – geðverndarmiðstöð á Akureyri. Einn af skemmtilegum sprotum þess samstarfs eru Múrbrjótarnir sem eru reglulegar knattspyrnuæfingar ætlaðar geðfötluðum þar sem áhersla er lögð á hreyfingu, almenna ánægju og vellíðan. Sumarið 2018 verður það þriðja sem boðið er upp á slíkar knattspyrnuæfingar og mun Björk Nóadóttir knattspyrnuþjálfari halda utan um starfið í sumar.

Stökkpallur fyrir unga atvinnuleitendur og íslenskunámskeið fyrir útlendinga
Vinnumálastofnun í samstarfi við Símey býður einnig upp á svokallaðan Stökkpall fyrir unga atvinnuleitendur, með það meginmarkmið að byggja upp sjálfstraust og tengja áhugasvið þátttakenda við vinnumarkaðinn. „Stór áhersla í starfi SÍMEY er að byggja upp grunnfærni einstaklinga og hlúa að henni þannig að fólk geti lært og byggt upp hæfni sína út frá sínum forsendum,“ segir Valgeir framkvæmdarstjóri símenntunarmiðstöðvarinnar. Auk þess má nefna að á hverju ári taka 300 þátttakendur af erlendu bergi, íslenskunámskeið á vegum Símeyjar, en í haust verða tólf slík námskeið í boði.

Rúmlega 2000 manns sóttu um við Háskólann á Akureyri

Alls sóttu 2.160 manns um skólavist við Háskólann á Akureyri fyrir næsta skólaár, 2018-2019. Þetta eru um 30% fleiri umsóknir en árið áður, en þá bárust 1615 umsóknir. Mest er aukningin í kennaradeild, eða 53%, og félagsvísindin eru fast á hælum hennar með 51% aukningu í umsóknum. 1.761 nemi hyggst hefja grunnnám í haust og 399 stefna á framhaldsnám. Ljóst er að skólinn stendur frammi fyrir áskorunum sem fylgja ört stækkandi stofnun og þarf aukið fjármagn til að fjölga starfsfólki svo hægt sé að ráða við aukna aðsókn í skólann. Þess má geta að aukin aðsókn var í alla háskóla landsins í vor, en þó áberandi mest í Háskólanum á Akureyri. Þann 9. júní sl. voru 418 nemendur brautskráðir frá skólanum.

Vantar í fimmtíu stöður
Til að anna aðsókn í nám við skólann þarf að ráða í allt frá þrjátíu – fimmtíu stöður næstu þrjú til fimm árin. Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir aukninguna milli ára ekki beint koma á óvart, en þó séu þessi 30% töluvert meira en hann gerði ráð fyrir.
„Við höfum nú í 2 ár haft verulegar áhyggjur af auknum nemendafjölda og undirfjármögnun háskólakerfisins. Þegar við sáum í hvað stefndi leituðum við beint til ráðuneytisins og hófum umræður um það hvernig þessari auknu eftirspurn verður mætt. Háskólaráð ályktaði að nú væri tækifæri fyrir stjórnvöld til að efla aðgengi að háskólanámi á öllu landinu. Á sama tíma er ljóst að ef auknum nemendafjölda fylgja ekki auknir fjármunir þarf að að grípa til almennra aðgangstakmarkana í nám við Háskólann á Akureyri, en við vonumst til þess að ekki þurfi að grípa til þess umfram það sem nú þegar er orðið í hjúkrunarfræði, sálfræði og lögreglufræði,“ segir Eyjólfur.

418 nemendur útskrifuðust frá HA en þetta var í fyrsta skipti sem nemendur úr lögreglufræði voru brautskráðir frá skólanum. Mynd: Daníel Starrason.

Greinin birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó