NTC

Tækifærin

Tækifærin

Berglind Ósk Guðmundsdóttir skrifar

Leiðarljós í stefnu Sjálfstæðisflokksins er frelsi einstaklingsins og trú á getu hans sem á endanum kemur samfélaginu vel. Jafnrétti og réttlæti eru hornsteinn í stefnu flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt það í verki að hann treystir ungu fólki til forystu í samfélaginu og hann veit að það er mikilvægt að hlusta á sjónarmið allra kynslóða.

Sem dæmi um þetta má nefna eftirfarandi málaflokka þar sem stefna Sjálfstæðisflokksins hefur haft og mun hafa áfram, bein áhrif á samfélagið:

– Lífskjör eru einna best á Íslandi og við viljum halda áfram á þeirri braut. Við þurfum að tryggja áframhaldandi ábyrga efnahagsstjórn svo að unga fólkið okkar geti haldið áfram að elta drauma sína og að allir eigi möguleika á því að byggja upp spennandi framtíð.

– Öflugt atvinnulíf er forsenda hagvaxtar í samfélaginu og undirstaða velferðarkerfisins. Við viljum lækka álögur á fólk og fyrirtæki og stuðla að frekari stöðugleika í atvinnulífinu.

– Við leggjum áherslu á loftslagsmál og segjum að orkumál séu loftslagsmál. Ekki erum við einungis í dauðafæri að verða fyrst þjóða til að hætta notkun jarðefnaeldsneytis, eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir, heldur yrði það stærsta framlag okkar Íslendinga til loftslagsmála. Það er því til mikils að vinna.

– Sjálfstæðisflokkurinn trúir því að menntakerfið sé besta verkfærið til að tryggja jöfn tækifæri. Menntakerfið þarf að þróast í takt við tímann, það þarf að auka fjölbreytni í skólastarfi og efla einstaklinginn. Valfrelsi í námi þarf að auka og við þurfum að standa betur að því að styðja við nemendur sem þurfa á sértækri aðstoð að halda.

– Við ætlum að endurskoða tryggingarkerfi eldri borgara og stokka upp tryggingarkerfi öryrkja. Það þarf að styrkja fjárhagslegt sjálfstæði notenda og auka möguleika til atvinnuþátttöku.

– Með því að nýta græna innlenda orkugjafa betur búum við einnig til spennandi ný störf og við þurfum að stefna að því að efla hugverkaiðnaðinn. Framtíðin liggur þar og við eigum að styðja við þau verk.

– Við viljum að réttur til heilbrigðisþjónustu sé tryggður og að þarfir fólksins séu í fyrsta sætið. Það skiptir ekki máli hver veitir þjónustuna heldur að jafnt aðgengi að henni sé tryggt. Við þurfum að ráðast í stafræna byltingu í heilbrigðis- og velferðarþjónustu og stórauka þannig aðgengi að t.d. sálfræðiþjónustu og sérfræðilæknum. Tæknin er til staðar. Við þurfum bara að nýta hana.

Ég bý í kjördæmi þar sem tækifærin eru endalaus og mikill kraftur í samfélaginu. Íbúar í dreifðari byggðum hafa gríðarlegan metnað fyrir því að nýta þessi tækifæri og leita nýrra í því skyni að efla sína heimabyggð. Hvert sem litið er eru spennandi verkefni í startholunum. Flest þessara verkefna eru drifin áfram af hugsjón og krafti þeirra sem að þeim standa og stjórnvöld mega ekki vera sein að byggja upp innviði þar sem þess þarf til að styðja við og styrkja þessi verkefni. Innviðauppbygging er fjárfesting í hagvexti framtíðarinnar.

Það er ærið og spennandi verkefni að byggja upp Ísland til framtíðar og tryggja að Ísland verði land tækifæranna fyrir alla.

Höfundur skipar 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi


Kaffið.is fylgist með Alþingiskosningunum í haust með áherslu á Norðausturkjördæmi. Finna má fleiri greinar og annað gagnlegt efni tengt kosningunum með því að smella hér.

Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó