NTC

Tækifæri til staðar fyrir vetrarferðaþjónustu í Skagafirði

Tækifæri til staðar fyrir vetrarferðaþjónustu í Skagafirði

„Beint millilandaflug inn á Akureyri eykur auðvitað aðgengið inn á svæðið okkar. Það er styttra að koma til okkar og þess vegna skiptir það máli. Það er líka auðvitað yfir vetrartímann, ekki alltaf fært landleiðina, en það er fært loftleiðina. Þannig að það hefur mikil áhrif“ segir Freyja Rut Emilsdóttir, framkvæmdastjóri 1238: Battle of Iceland í myndbandi sem Markaðsstofa Norðurlands birti á Facebook síðu sinni.

„Við undirbúum okkur til dæmis með því að leggja áherslu á að hafa opið yfir allan veturinn, hafa opið alla daga, og aðgengið sé þá auðvelt. Við höfum auðvitað líka sett aukna áherslu á markaðsstarf í nágrenni flugvallarins, það er að segja, vera með markaðsefni okkar þar þannig að fólkið sem vissi ekki af okkur þegar það kom, veit af okkur þegar það er komið,“ segir Freyja Rut.

Að mati Freyju eru tækifæri til staðar fyrir vetrarferðaþjónustu í Skagafirði, sem hægt er að nýta mun betur en gert er í dag.

Tengingin við nærsvæðið er áberandi þegar sýningin hjá 1238 er skoðuð, en tenging fyrirtækisins er einnig mikil inn í nærsamfélag nútímans.

„Ég held við gerum heilmikið fyrir samfélagið. Við höfum til dæmis staðið fyrir fjölbreyttum viðburðum, sem oft er ætlað að höfða til heimafólks. Við höfum viðburði sem fjalla um héraðstengda menningu, staðbundna menningu og sögu, sem gjarnan er ókeypis inn á. Við höldum líka viðburði, menningarviðburði, stærri viðburði eins og tónleika og uppistand. Við gáfum í fyrra öllum íbúum Skagafjarðar í jólagjöf, aðgang að sýningunni – fjölskyldupassa. Við höfum tekið þátt í að styrkja, tökum vel í allar styrkbeiðnir, þegar við erum beðin um að gefa í bingó og svona. Um daginn var stórt körfuboltamót þar sem þátttökugjöfin var aðgangur að sýningunni, þannig að við höfum gert eitt og annað til að styðja við samfélagið,“ segir Freyja.

Hún er bjartsýn á að fyrirtækið stækki í framtíðinni, fá fleiri gesti til sín á Sauðárkróki en hún sér líka fyrir sér að geta farið með sýninguna og sett hana upp tímabundið hér og þar.

„Hvað fyrirtækið varðar og þróun í ferðaþjónustu, þá erum við kannski að horfa til fjölbreyttrar stækkunar. Bæði erum við að vonast til að fjölga gestum á sýninguna okkar, og ég vil gjarnan að við höfum sveigjanleikann til að hafa lengri opnunartíma, fram á kvöld jafnvel. En við erum líka að þróa sýningar í allar áttir, það er að segja við erum að opna sýninguna okkar víðar. Bæði hérlendis og erlendis, þannig að stækkunin á sér stað annarsvegar hér þar sem við erum að fjölga gestum en líka þar sem við erum að sá fræjum víðar. Ég vona að ferðaþjónusta hér á Sauðárkróki, það fjölgi möguleikum og tækifærum fyrir aðra. Bæði afþreyingu, í gistingu og svo framvegis,“ segir Freyja Rut.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó