Andri Teitsson skrifar
Með byggingu nýs keppnisvallar, stúku og félagsaðstöðu á KA svæði á næstu árum er ljóst að það losnar um Akureyrarvöll og við getum skipulagt það svæði frá grunni. Uppbygging á Akureyrarvelli er eitt af þessum stóru tækifærum sem koma bara á tíu eða tuttugu ára fresti, til að gera grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi bæjarins, það er staðsetningu íbúðabyggðar, þjónustu og atvinnustarfsemi, og svo samgönguleiðum til að tengja þetta allt saman. Svipað tækifæri gafst fyrir rúmlega tuttugu árum þegar Glerártorg tók við af Sambandsverksmiðjunum, og inni í framtíðinni – kannski í fjarlægri framtíð – bíður það tækifæri að atvinnurekstur flytji sig af Oddeyrartanga og við byggjum þar upp glæsilegt og spennandi bryggjuhverfi.
Sjá einnig: Rætt um framtíð Akureyrarvallar í bæjarstjórn
En í hverju felst tækifærið á Akureyrarvelli? Það er margþætt.
Ég vil fyrst nefna það augljósa, sem er að þétta byggðina. Að byggja fleiri íbúðir, fleiri verslanir, meira skrifstofuhúsnæði og meira þjónustuhúsnæði, veitingastaði, hótel, innan um það sem fyrir er, og þar sem hvað styður annað, þar sem fólk getur búið í nágrenni við vinnustaðinn sinn og í nágrenni við verslun og afþreyingu, sem styður við bíllausan lífsstíl og gerir allar samgöngur einfaldari og ódýrari og umhverfisvænni, sparar okkur gatnagerð og snjómokstur, gefur færi á beinskeyttara og sterkara strætókerfi, svo nokkuð sé nefnt.
Í öðru lagi felst tækifærið í að tenga saman gamla miðbæinn og Glerártorg, þannig að við fáum samfelldan miðbæ eða kjarna með verslunum, þjónustu og íbúðabyggð, í hjarta bæjarins, niðri á láglendinu sem við eigum svo lítið af.
Í þriðja lagi er þetta tækifæri til að efla miðbæjarsvæðið, sem hefur verið hornreka að segja má undanfarna áratugi, á meðan bærinn hefur stækkað til norðurs og vesturs og suðurs, þá hefur miðbærinn að einhverju leyti setið eftir, og niðurstaðan er að miðbærinn er ekki lengur í miðjunni heldur er hann eiginlega í austurjaðri bæjarins, og samgönguleiðirnar að miðbænum eru allar með einhverjar áskoranir, á Glerárgötu og Hörgárbraut erum við með mikla umferð, mikinn hraða, hávaða og svifryk, á Þingvallastræti erum við með betra ástand en þar er mikill bratti upp frá miðbænum, og svo erum við með Drottningarbraut og Skautasvellsbrekkuna sem er ekki alveg markviss tenging til suðurs. Þannig að tækifærið til að efla miðbæinn „innanfrá“ með uppbyggingu á Akureyrarvelli er miklu nærtækari en að reyna að efla miðbæinn „úr fjarlægð“ með að treysta á aðsókn þangað úr fjarlægari hverfum.
Loks vil ég nefna það tækifæri að tengja betur saman Oddeyrina og miðbæinn, spennandi leið til þess væri að leggja Glerárgötu í stokk til dæmis frá Greifanum og suður að Sjalla. Hugsið ykkur ef fólk gæti gengið óhindrað frá Akureyrarvelli og yfir að Greifanum eða yfir á Eiðsvöll, án þess að hafa nokkrar einustu áhyggjur af bílaumferð. Þetta myndi jafnframt verða vítamínssprauta fyrir uppbyggingu á Oddeyri.
En er þetta ekki allt of dýrt dæmi, svona stokkur? Þá er fyrst að benda á að Glerárgatan er á forræði Vegagerðarinnar, hún er svokallaður þjóðvegur í þéttbýli. Og Vegagerðin er um þessar mundir að vinna mörg spennandi og stórhuga verkefni sem miða að því að bægja umferð frá heimilum og byggðakjörnum. Á Hrafnagili er verið að leggja nýjan veg meðfram Eyjafjarðará, austan við byggðina, í stað vegarins sem fer beint í gegn. Þetta er um það bil 500-600 milljón króna verkefni ef allt er talið og gert í þágu um það bil 350 manna byggðar. Í Vestanverðum Hörgárdal er búið að leggja nýjan veg niðri á túnum í staðinn fyrir gamla veginn sem fór um hlaðið á bæjunum. Ég leyfi mér að giska á að þetta hafi kostað 200 milljónir króna og sé gert í þágu 20 til 40 manna byggðar. Vissulega má segja að þessar framkvæmdir komi hinum almenna vegfaranda einnig til góða. Bæði á Hrafnagili og í Hörgárdal eru þetta jákvæð verkefni sem stuðla að auknu umferðaröryggi og meiri lífsgæðum. Þannig að þá kem ég að þeirri spurningu, hvað skyldi Vegagerðin geta gert til að létta á umferð og auka öryggi í 19 þúsund manna byggð?
Ég hvet alla Akureyringa til að láta hugann reika um Akureyrarvöll og skapa í huganum mynd af íbúðabyggð, verslun og þjónustu, útivistarsvæði eða blöndu af öllu þessu. Framtíðin er innan seilingar.
Andri Teitsson er bæjarfulltrúi fyrir L-listann á Akureyri
UMMÆLI