NTC

Sýningin tileinkuð sögu Amtsbókasafnsins – Kaffið kíkti í heimsókn

Notalegt andrúmsloft tekur á móti gestum Amtsbókasafnsins í dag sem endranær. Í sófa á fyrstu hæð situr ung kona og prjónar röndóttan trefil. Eldri hjón hjálpast að við lána bækur í sjálfsafgreiðsluvél. „Þetta er ekkert mál “, segir konan upphátt með stolti í röddinni. Úr barnadeildinni heyrist hlátur í börnum sem hoppa og dansa í takt við Kinect leikjatölvu. Á Amtsbókasafninu ríkir góður andi.

Í ár fagnar Amtsbókasafnið á Akureyri 190 ára afmæli sínu. Af því tilefni opnaði sýning í safninu á sjálfum afmælisdeginum, þann 25. apríl. Er sýningin sú tileinkuð sögu safnsins og mun standa út maí. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri opnaði sýninguna formlega. Í framhaldinu var gestum boðið upp á kleinur og jólakökur frá Bakaríinu við brúna, bakaðar eftir 200 ára gamalli uppskrift í anda tilefnisins. Kristján Edelstein spilaði ljúfa tóna á gítar á meðan gestir skoðuðu sýninguna og spjölluðu hver við annan. Viðburðurinn heppnaðist vel.

Saga Amtsbókasafnsins á Akureyri
Safnið var stofnað árið 1827 af Grími Jónssyni, amtmanni á Möðruvöllum og var skömmu síðar í vörslu Andreasar Mohrs, faktors Gudmannsverslunar, í húsi sem enn stendur í dag og er í daglegu tali nefnt Laxdalshús. Næstu 120 árin átti Amtsbókasafnið eftir að vera víða til húsa í bænum. Lengi vel voru notendur fáir, aðeins um 20-30 fastagestir. Árgjald nam um dagslaunum verkamanns á þeim tíma. Bókakosturinn var ekki við allra hæfi, sér í lagi ekki almennings en fæstar bókanna voru á íslensku. Árið 1894 var ákveðið að lána bækur endurgjaldslaust og við það jókst lestur mikið.

Í kjölfar vaxandi vinsælda fjölgaði bókum og ritum í safnkostinum, sem kallaði á stærra húsnæði. Kaflaskil urðu í sögu Amtsbókasafnsins þegar Akureyrarkaupstaður eignaðist safnið árið 1905. Þeim samningum fylgdi það skilyrði að byggt yrði utan um safnið eldtraust geymsluhús auk lestrarstofu en sökum kreppu- og erfiðleikatíma liðu þó nokkur ár þar til það varð að veruleika.

Loks var hið nýja húsnæði vígt við hátíðlega athöfn þann 9. nóvember árið 1968 í tilefni 100 ára afmælis Akureyrarkaupstaðar. Eftir að hafa verið á húsnæðishrakningi í 140 ár fékk safnið loks varanlegt húsnæði við Brekkugötu 17.

Amtsbókasafnið er elsta stofnun bæjarins. Þjónusta safnsins, sem er í sífelldri þróun, nýtur mikilla vinsælda og eru daglegar heimsóknir að meðaltali um 400 talsins – eða um 100.000 á ári. Safnkosturinn stækkar með ári hverju og eru yfir 200.000 titlar aðgengilegir í safninu. Amtsbókasafnið stendur með annan fótinn á traustum grunni fortíðar en horfir jafnframt björtum augum til framtíðar. Myndir sem teknar voru á sýningunni fylgja fréttinni.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó