Sýningaleiðsögn í Ketilhúsi

Á skírdag kl. 12.15-12.45 og laugardaginn 15. apríl kl. 15-15.30 verður boðið upp á leiðsögn í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi um sýningar Einars Fals Ingólfssonar, Griðastaðir, og Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar, 360 dagar og málverk. Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi, tekur á móti gestum og fræðir þá um sýningarnar. Skoðuð verða olíumálverk, gvassmyndir og ljósmyndaverk þar sem náttúran er í aðalhlutverki. Opnunartími um hátíðirnar er kl. 12-17 skírdag til páskadags, en lokað á annan í páskum.

Sýningin Griðastaðir er úrval ljósmyndaverka úr fjórum tengdum seríum sem Einar Falur hefur unnið að á undanförnum áratug. Svissneski sýningarstjórinn Christoph Kern valdi verkin á sýninguna úr myndröðunum Griðastaðir, Skjól, Reykjanesbrautin og Sögustaðir. Í verkunum tekst Einar Falur á við manninn og íslenska náttúru; við náttúruöflin, hvernig mennirnir reyna að lifa í og með náttúrunni, laga hana að þörfum sínum, verjast henni á stundum en jafnframt leita í henni skjóls. Verkin eru öll tekin á 4 x 5 tommu blaðfilmu.

Ljósmyndaverk Einars Fals hafa á undanförnum árum verið sýnd á einka- og samsýningum í söfnum og sýningarsölum á Íslandi, meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum. Hann er með BA-gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og MFA-gráðu í ljósmyndun frá School of Visual Arts í New York. Einar Falur starfar sem myndlistarmaður, rithöfundur og blaðamaður.

Málverkin á sýningu Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar, 360 dagar og málverk, eru annars vegar „randamyndir“ unnar með endurunnum gvasslitum Karls Kvaran og hins vegar olíulitaverk þar sem myndefnið er sindrandi eða merlandi vatnsfletir. Ljósmyndaverkið 360 dagar í Grasagarðinum var upphaflega unnið fyrir Listvinafélag Hallgrímskirkju. Kveikjan að verkinu er ævi og örlög Hallgríms Péturssonar, en það hefur þó mun víðtækari skírskotanir. Verkið samanstendur af um 80 ljósmyndum teknum á 360 daga tímabili í litlum skrúðgarði í Brighton á Englandi og fjallar um hringrás efnis í lífríkinu og þá eilífð og endurnýjun sem skynja má í henni.

Sigtryggur Bjarni stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík og Frakklandi. Hann hefur haldið yfir 30 einkasýningar og finna má verk hans í öllum helstu listasöfnum landsins.

Sýningunum lýkur á páskadag, sunnudaginn 16. apríl.

Fréttin birtist á Akureyri.is

Mynd: Akureyri.is

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó