NTC

Svona getur þú lagt þitt af mörkum fyrir fólkið í Sýrlandi

alppp

Frá Aleppo

Þegar við sjáum fréttir af hörmungunum í Sýrlandi og því blóðbaði sem hefur átt sér stað síðustu daga í Aleppo er auðvelt að finnast maður máttvana gagnvart því. Það geta samt allir lagt sitt af mörkum til að hjálpa á einhvern hátt. Til dæmis með því að styrkja hin ýmsu samtök sem eru á svæðinu að vinna hjálparstarf. Kaffið tók saman nokkrar leiðir til þess að leggja sitt af mörkum fyrir fólkið í Aleppo, á öðrum stríðshrjáðum svæðum Sýrlands og þeim sem eru á flótta.

Tala máli stríðshrjáðra Sýrlendinga
Það eru yfirleitt ömurlegar aðstæður sem stríðshrjáðir Sýrlendingar búa við, hvort sem þeir eru enn í landinu eða á flótta. Það eitt að láta sig málið varða, fylgjast með ástandinu og vekja á því athygli, er stuðningur við fórnarlömb stríðsins. Að deila fréttum, mæta á mótmæli og sýna stuðning sinn í verki. Það er eitthvað sem allir geta gert.

Styrkja White Helmets samtökin – Styrkja HÉR
Hægt er að horfa á magnaða heimildamynd á Netflix um þessa sýrlensku sjálfboðaliða sem eru hjálpar- og leitarsveit sem vinna þarft starf í Aleppo. Þeir reyna að vera alltaf fyrstir á vettvang þar sem loftárásir hafa verið gerðar og hafa bjargað ótal óbreyttum borgurum úr rjúkandi rústum.

Styrkja neyðarsöfnun Unicef fyrir börn í Sýrlandi – Styrkja HÉR
Á síðu Unicef er hægt að velja um upphæð til að styrkja. Unicef hefur unnið að hjálparstarfi í Sýrlandi frá því stríðið hófst. Unicef eru með skrifstofur í Aleppo og vinna að því að bæta ástand barna í landinu.
Einnig er hægt að senda SMS-ið STOPP í númerið 1900 og gefa þannig 1900 krónur til hjálparstarfsins.

Styrkja flóttamenn beint í gegnum Humanwire – Styrkja HÉR
Humanwire er vefsíða þar sem þú kemst í beint samband við flóttamenn sem lifa við erfiðar aðstæður. Styrkurinn rennur svo beint til þeirra, milliliðalaust og hægt er að fylgjast með aðstæðum þeirra sem þú styrkir.

Styrkja lækna án landamæra – Styrkja HÉR
Læknar án landamæra veita heilbrigðisþjónustu sem er mjög löskuð í landinu vegna stríðsins. Eins og staðan er núna komast starfsmenn ekki inn í Aleppo en samtökin útvega tækjabúnað og birgðir sem eru nauðsynlegar fyrir heilsugæslur og sjúkrahús, sem mörg hver hafa orðið fyrir mikilli eyðileggingu.

Styrkja International Rescue Committee (IRC) – Styrkja HÉR
IRC hefur unnið hjálparstarf í Sýrlandi frá árinu 2012. Samtökin hafa unnið þarft starf og m.a. útvegað neyðaraðstoð fyrir fólk sem hefur misst heimili sín, með matargjöfum og fatnaði ásamt því að búa til örugg svæði fyrir konur og börn. IRC leggur líka mikla áherslu á stuðning við heilsugæslur og sjúkrahús ásamt því að reyna að halda við, að einhverju leyti, menntun barna í landinu.

Fleiri hjálparsamtök er hægt að finna með því að leita og afla sér upplýsinga á vefnum. Þó ber að hafa í huga að vera upplýstur um það starf sem hjálparsamtökin vinna og að styrkirnir skili sér á réttan stað. 

 

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó