Svava Björk Ólafsdóttir ráðin verkefnastjóri nýsköpunar við Háskólann á Akureyri

Svava Björk Ólafsdóttir ráðin verkefnastjóri nýsköpunar við Háskólann á Akureyri

Svava Björk Ólafsdóttir, sérfræðingur í nýsköpun og vistkerfi frumkvöðla, hefur verið ráðin í starf verkefnastjóra frumkvöðla og nýsköpunar við Háskólann á Akureyri. Þetta kemur fram á vef skólans.

Svava Björk er með BS próf í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands, MPM próf frá Háskólanum í Reykjavík og er auk þess viðurkenndur markþjálfi.

Svava Björk hefur margra ára reynslu úr vistkerfi nýsköpunar og hefur stofnað og stýrt fjölda verkefna sem snúa að nýsköpun og frumkvöðlafræði. Hún er annar stofnenda RATA þar sem hún sérhæfir sig meðal annars í vinnustofum, fræðslu, verkefnastýringu og ráðgjöf við hönnun og þróun ferla tengt nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Má þar nefna þróun og verkefnastýringu á Ratsjánni í samstarfi við Íslenska ferðaklasann og þróun og stofnun Norðanáttar með stuðningsumhverfinu á Norðurlandi. Svava var ráðgjafi Norðanáttar við gerð skýrslu um nýsköpun innan Háskólans á Akureyri og markmið samstarfsins var að aðstoða við mótun stefnu nýsköpunar fyrir HA og koma með umbótatillögur og sá fræjum nýsköpunar meðal starfsfólks og stúdenta.

NTC

Svava Björk hefur unnið mikið með einkafyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum við að bæta umgjörð og ferla varðandi stuðning við fyrirtæki og fjárfesta. Þá hefur Svava Björk stýrt og kennt áfangann Nýsköpun og stofnun fyrirtækja við Háskólann í Reykjavík í nokkur ár. Svava er auk þessa stofnandi IceBAN (Iceland Business Angel Network), samtaka englafjárfesta á Íslandi, stofnandi Hugmyndasmiða sem er fræðsluverkefni um nýsköpun fyrir börn og er sjálf englafjárfestir.

Háskólinn á Akureyri hefur formfest samstarf við Drift EA og verður Svava verkefnastjóri í því samstarfi ásamt því að vinna með öðrum aðilum í umhverfi nýsköpunar á svæðinu.

Svava Björk hefur störf í janúar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó