Hið almáttuga alnet hefur undanfarna daga verið iðið við að minna mig á að langt sé um liðið frá því að ég hafi skrifað pistil og hvort mér sé ekki farið að liggja eitthvað á hjarta. Maðurinn minn og margir fleiri geta vitnað um það að mér liggur yfirleitt alltaf eitthvað á hjarta en þó gerist það að mér finnast hugsanir mínar ekki eiga erindi út fyrir höfuðið á sjálfri mér. Oftast þó þegar þær hugsanir eru dapurlegar og fullar af skammdegi. Þannig hefur líðanin verið undanfarna daga og jafnvel þó að styttist hratt í hátíð ljóss og friðar. Eða kannski einmitt þess vegna.
Ég er viðkvæm fyrir desembermyrkrinu og helst þá því huglæga. Myrkrinu sem fylgir óveðri, hríðarbyljum og stuttum degi er hægt að verjast en myrkrinu sem fylgir því að ungt fólk týni lífi er erfiðara að bægja frá. Ekki síður er lítinn frið að finna fyrir myrkrinu sem grimmd, forheimskun og kúgun orsaka. Stundum verður svo dimmt í mannheimum að meira að segja minning um ljós og líf dofnar. Og jólin sem eiga að lýsa upp vetrarmyrkrið eru orðin svo undirlögð af græðgi og neysluáherslum að boðskapurinn fýkur líka út í myrkrið með norðanvindinum.
Fjölmiðlar og netmiðlar keppast við að gera allar vörur að jólavörum, jólin eiga heima í flestum verslunum og byrja í fjölmörgum líka. Í auglýsingum er boðskapur jólanna gerður fyndinn, afkáralegur eða menn reyna að setja upp helgisvip og selja út á hann. Við erum með grátstafinn í kverkunum að reyna að telja okkur trú um að við þurfum ekki að þrífa út í hornin og að Gunna frænka móðgist ekki þótt hún fái bara heimalagaða bláberjasultu í jólagjöf en erum samt kyrfilega miður okkar yfir því að vera ekki með fullkomnu jólin á hreinu. Þessi sem kosta augun úr og skilja lítið eftir sig nema jólapappír og glimmer í rifunum á parketinu. Væntingarnar smjúga inn í hjörtun sem eru opin og viðkvæm í myrkrinu og við getum ekki alveg brynjað okkur fyrir röddunum í útvarpinu og snappsögunum af því hvernig jólin eiga að vera.
Það eru helst sakleysingjar sem geta kennt okkur eitthvað um frið og birtu þessa dagana. Ég var að hugsa um það í daglegri gönguferð með hundinn minn, hversu mikið við getum lært af dýrum og börnum. Voffaskottið hefur engar sérstakar væntingar til daganna, honum dugar að fá að borða og að eiga hlýjan stað að kúra á. Hann óttast það eitt í lífinu að vera aðskilinn frá okkur fjölskyldunni sinni og að okkur líði illa því þá líður honum illa. Hann hlustar ekki á útvarpið nema á fallega tónlist og hann horfir ekki á sjónvarpið nema ef það eru þættir um dýr. Hann elskar að leika sér, hann elskar að vera úti jafnt í sólskini og stórhríð og hann elskar að vera umkringdur af þeim sem hann elskar. Jú vissulega má rökstyðja það að hann sé svona af því að hann sé ekki nógu greindur til að vera öðruvísi en kannski er hann bara miklu greindari en við, Í öllu falli veit hann betur hvað það er sem skiptir mestu máli í lífinu. Og hann kann að vera í andránni (núinu).
Um þessi jól ætla ég að reyna að taka hundinn minn til fyrirmyndar og láta ekki myrkrið gleypa mig. Ég ætla að vera í andránni, njóta þess að borða, hvíla mig mikið, fara út að leika, vera með fjölskyldunni, horfa á þætti með dýrum og hlusta á fallega tónlist. Aðrar væntingar og pælingar verða látnar bíða síns tíma og þeir sem vilja efnast á vetrarkvíðanum mínum, geta farið í rass og rófu.
Gleðileg jól.
UMMÆLI