Á fundi sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps var samþykkt bókun varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar. Í bókuninni kemur fram að sveitarstjórn leggi áherslu nauðsyn þess að ávallt sé fært með sjúklinga að sjúkrahúsi allra landsmanna, sem staðsett er í miðborg Reykjavíkur. Svalbarðsstrandarhreppur bætist því í hóp nokkura sveitafélaga sem skora á Borgarstjórn Reykjavíkur, Samgönguráðherra og Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis að stuðla að því að neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar verði opnuð aftur.
Bókunin í heild:
Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps leggur áherslu á nauðsyn þess að ávallt sé greið leið með sjúklinga að eina hátæknisjúkrahúsi landsins, sjúkrahúsi allra landsmanna, sem staðsett er í miðborg Reykjavíkur. Lokun neyðarbrautarinnar svo kölluðu á Reykjavíkurflugvelli hefur á undangengnum vikum leitt til þess að sjúkraflugvélar hafa ekki getað lent í Reykjavík né annars staðar á suðvestur horninu með alvarlega veika einstaklinga, sem hafa þurft á bráðnauðsynlegri umönnun að halda. Það er því ófrávíkjanleg krafa að neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar verði opnuð aftur þar til önnur og jafngóð lausn finnst. Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps skorar á Borgarstjórn Reykjavíkur, Samgönguráðherra og Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis að stuðla að því að svo geti orðið.
UMMÆLI