KÍTÓN, félag kvenna í tónlist, stendur fyrir klassískri tónleikaröð í Menningarhúsinu Hofi og Iðnó í vor og sumarbyrjun. Næstu tónleikar fara fram mánudaginn 14. maí kl. 20:30 í Iðnó og þriðjudaginn 15. maí kl. 20:30 í Hofi.
Á tónleikunum kemur fram Inga Björk Ingadóttir, en hún syngur og leikur á lýru. Inga kynntist lýrunni við nám í Berlín og hefur hljóðfærið síðan þá skipað stóran sess í tónsköpun hennar. Á tónleikunum syngur Inga Björk og spilar eigin lög ásamt nokkrum lögum eftir íslenskar og erlendar tónlistarkonur sem hún hefur útsett sérstaklega.
„Sérstæður hljómur lýrunnar leiðir sköpunarferlið þegar að ég sem lögin og textana. Lýran er einstakt hljóðfæri og finnst mér hljómur hennar kjarna og útvíkka í senn” segir Inga Björk. Lýran er eitt af elstu þekktu strengjahljóðfærunum og er hún notuð til tónlistarsköpunar, meðferðar og kennslu um allan heim.
Inga Björk hefur komið víða við á tónlistarferli sínum. Hún lauk burtfararprófi í píanóleik, lærði tónsmíðar og tölvutónlist. Hún hélt til náms í músíkmeðferð í Berlín árið 2001 og lauk þar námi 2006. Frá þeim tíma hefur hún sótt fjölda námskeiða og starfað að músíkmeðferð hér heima og erlendis. Hún kemur reglulega fram með tónlist sína og hefur einnig samið tónlist fyrir leikverk, dansverk og brúðuleikhús í Þýskalandi.
Miðasala er á www.tix.is og við innganginn. Tónleikarnir eru samstarfsverkefni KÍTÓN og Iðnó og styrktir af Tónlistarsjóði og Tónlistarsjóði Hofs og Samkomuhússins.
UMMÆLI