NTC

Sum börn fá að lifa. Önnur ekki

Sum börn fá að lifa. Önnur ekki

Alfa Jóhannsdóttir skrifar

Í liðinni viku lét ég nemendur mína við Háskólann á Akureyri fara í leik. Leikurinn fól í sér að skipta nemendum upp í hópa þar sem þau voru ímynduð ríkisstjórn í litla landinu Yslandi, en vegna smæðar sinnar er efnahagur þessa ímyndaða lands af afar skornum skammti og því ekki hægt að uppfylla öll réttindi Barnasáttmálans. Leikurinn hófst á því að hver hópur þurfti að skera niður tíu réttindi af fimmtíu og fjórum. Það tók langan tíma og þeim fannst erfitt að velja úr og forgangsraða réttindunum, en það hafðist eftir hávær mótmæli. Tíu réttindi fengu að fjúka, fjörtíu og fjögur réttindi eftir.

Næst áttu þau að skera niður fimmtán réttindi í viðbót og málið flæktist enn meira en mótmælin voru þó lægri. Tuttugu og fimm réttindi fokin og tuttugu og níu eftir. „Ef börnin fá að lifa og ekki vera beitt ofbeldi þá þurfa þau kannski ekki beint réttláta málsmeðferð ef þau brjóta af sér …“ sagði einn nemandinn. „Já, það er ekki eins og þau þurfi að tjá sig, hafa skoðanir eða mennta sig ef þau fá ekki að lifa …“ sagði annar.

Næsta verkefni var að velja úr tíu réttindi sem verða uppfyllt, öll önnur látin hverfa. Tíu handvalin réttindi fyrir börn, fjörtíu og fjórum réttindum skolað niður í klósettskálina. Nú voru engin mótmæli, bara hausinn niður og unnið að því að handvelja mikilvægustu réttindin. Sum börn fengu að lifa án ofbeldis, önnur fengu að mennta sig og enn önnur fengu að lifa og þroskast – önnur ekki. Afþví að það voru mismunandi hópar með mismunandi forgangsröð og sýn. En svona er raunveruleikinn í dag, sum börn fá að mennta sig, sum börn fá vernd og öryggi og sum fá að lifa af. Önnur ekki.

Höfum við tapað mannúðinni?

Ég hef vægast sagt verið miður mín eftir nýlega ákvörðun utanríkisráðherra að frysta fjárframlög Íslands til  Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) í kjölfar ásakana í garð starfsmanna stofnunarinnar, sem enn sem komið er virðast á litlum rökum reistar. Ásakanir á hendur tilteknum meðlimum UNRWA ættu ekki að skyggja á mikilvægt og nauðsynlegt mannúðarstarf samtakanna, né ættu þær að vera réttlæting fyrir því að halda eftir nauðsynlegri aðstoð frá þeim sem eru háð henni til að lifa af. Ég er búin að horfa uppá þjóðarmorð Ísraela í beinu streymi í gegnum samfélagsmiðla síðustu rúmlegu 120 dagana, algera slátrun á almennum borgurum og þar að stórum hluta börn. Ég trúi ekki að íslenska ríkisstjórnin og þar með íslenska þjóðin, séu tilbúin að setja sig í hóp með þeim sem styðja Ísrael í útrýmingaraðgerðum þeirra á Palestínsku þjóðinni. Að mínu mati er þetta algerlega glórulaus aðgerð sem framkvæmd er beint í kjölfarið á því að Alþjóðadómstóll Sameinuðu þjóðanna (ICJ) kveður á um að almennir borgarar á Gaza verði að hafa aðgang að mannúðaraðstoð. Við sem friðelskandi og herlaus þjóð eigum ekki að vera í hópi með helstu nýlenduherrum heims í stuðningi við Ísrael. Ég skil vel að það er ekki einfalt að rísa upp sem lítið eyjasamfélag í miðju Atlantshafi, með heildaríbúafjölda á við smábæi í öðrum löndum, háð inn- og útflutningi vara og ég ætla ekki að þykjast þekkja vel til viðskiptasamninga eða hafa djúpa þekkingu á milliríkjasamningum eða lagalegum skuldbindingum þjóða við hver aðra. Ég þekki hinsvegar samkennd, mannúð og rétt allra barna til lífs og þroska og minn innri áttaviti segir hingað og ekki lengra.

Viðkvæmustu þolendur átaka eru börn

Ég hef varið flestum mínum fullorðinsárum í að vinna að málefnum barna að einhverju leyti, sérhæft mig í réttindum þeirra og velferð. Ég hef valið að berjast fyrir því að tryggja með sem bestum hætti að hvert barn fái tækifæri til að alast upp í öruggu, nærandi umhverfi, laust við skugga ofbeldis og átaka. Það er málstaður sem nær yfir landamæri og hugmyndafræði, sem á rætur sínar í þeirri grundvallartrú að hvert einasta barn eigi skilið að lifa lífi í reisn og öryggi, óháð uppruna, trú, stétt, stöðu eða nokkru öðru. Ákvörðun Íslands um að frysta fjárframlög til mannúðaraðstoðar til íbúa á Gaza ógnar beint velferð ótal barna og hefur alvarlegar afleiðingar. Þessi börn hafa nú þegar upplifað ólýsanlega skelfilegar aðstæður sem við í litlu forréttindabubblunni okkar á Íslandi munum aldrei geta gert okkur í hugarlund, börn eru viðkvæmustu þolendur vopnaðra átaka og upplifa í þeim áföll sem munu hafa djúpstæð og langvarandi áhrif á bæði líkamlega og andlega líðan þeirra. Þeirri ákvörðun að stöðva fjárframlög til UNRWA fól einnig í sér ákvörðun um að vera ekki lengur hlutlausi áhorfandinn sem við virtumst ætla að vera. Það sem þessi ákvörðun felur í sér er að meina börnum aðgang að nauðsynlegri aðstoð, vernd og stuðningsþjónustu sem skiptir sköpum fyrir afkomu þeirra og þroska. Þetta er ákvörðun sem sendir hrollvekjandi skilaboð um að við virðum að engu þá sameiginlegu skuldbindingu okkar að standa vörð um réttindi barna og vernda þau gegn skaða, óháð pólitískum sjónarmiðum og flóknum viðskiptasamningum. Sem einstaklingur sem trúir á grundvallarréttindi alls fólks er þessi ákvörðun okkar stórt sár sem vellur úr og ég upplifi þetta sem hrein svik við sameiginlegri ábyrgð okkar að halda uppi mannlegri reisn og lina þjáningar.

Þvinguð þögn

Þvinguð þögn er eftirlætisvopn kúgaranna og við megum ekki skorast undan því að segja sannleikann upphátt, jafnvel þó að það kunni að vera óþægilegt eða óvinsælt. Við erum ekki öll í valdastöðu innan íslenska ríkisins, en við höfum öll rödd og henni fylgir gríðarlegt vald sem við megum ekki gleyma. Veljum að nota röddina, þrýstum á ríkisstjórnina, tölum hátt, sendum tölvupósta og tökum slaginn. Það að velja að þegja frammi fyrir óréttlæti eða kúgun, styður óbeint við þann sem beitir kúguninni. Það sýnir að með því að velja að tjá okkur ekki eða grípa til aðgerða stuðlum við óbeint að því að viðhalda óréttlætinu og þjáningum þeirra sem eru kúguð. Sem talsmenn réttinda barna getum við ekki leyft okkur að þegja yfir svona óréttlæti og ofbeldi. Við þurfum að sýna samstöðu með öllum börnum, ekki bara okkar eigin. Við þurfum að hvetja íslensku ríkisstjórnina til að endurskoða ákvörðun sína og ítreka skuldbindingar þeirra. Við megum ekki missa sjónar á sameiginlegri mannúð okkar og siðferðilegri skyldu okkar til að standa vörð um réttindi og velferð hinna viðkvæmustu á meðal okkar. Saman getum við sannarlega skapað heim þar sem hvert barn getur dafnað, blómstrað og lifað af.

Alfa Jóhannsdóttir er móðir, frænka, móðursystir og nágranni barna.

VG

UMMÆLI