Nú nálgast páskahátíðin. Frídagar sem eru ekki yfirhlaðnir hefðum og undirbúningi heldur snúast aðallega um sólskin og súkkulaði. Ég ætlaði einmitt að skrifa um það, en þessa dagana eru málefni aldraðs fólks mér ofarlega í huga og ég ætla að nota tækifærið og létta örlítið á hjarta mínu.
Nýverið heyrðum við ógnvekjandi staðreyndir úr rannsókn um vannæringu aldraðra í heimahúsum, fólks sem er sent heim af spítölum vegna þess að það teppir bráðadeildir en sökum hrumleika eða sjúkdóma er það ekki fært um að sjá um sig heima. Fjármagn fæst ekki til að fjölga hjúkrunarrýmum og sú hjúkrun og sá stuðningur sem veita ætti heima er líka fjársveltur. Aðstandendur og ættingjar eru aðframkomnir og ráðalausir, enda flestir í nægum barningi með eigið líf. Starfsfólk og stjórnendur þjónustunnar eru líka fórnarlömb kerfisins, gott fólk sem vill gera betur en fær ekki til þess fjármagn.
Á meðan öllu þessu fer fram stendur hinn aldraði í miðju átakanna um það hvaða kerfi fær þann vafasama heiður að sjá um hann. Hann fær sífellt að heyra það að hann sé baggi á þjóðfélaginu, hann teppir bráðadeildir fyrir „alvöru“ sjúklinga, hann er bitbein ríkis og bæjar. Hann hættir að vera einstaklingur sem sýna á virðingu en verður óþægileg stærð í öllu ríkidæminu og góðærinu.
Svo nálgast kosningar og enn einu sinni ætla frambjóðendur að setja það í forgang að hugsa betur um aldraða og öryrkja en svíkja það að öllum líkindum einnig núna.
Njótum súkkulaðis og sælu um páskana en hugleiðum aðeins líka þetta með virðinguna fyrir öllum.
Gleðilega páska.
Pistillinn birtist upphaflega í Norðurlandi 27. mars 2018.
UMMÆLI