Styrktu Unghugahóp Grófarinnar um tæplega milljón krónaÞórólfur Egilsson, formaður Lionsklúbbsins Hængs veitir formannsteymi Unghuga þeim Richardi Bouman (vinstri) og Fjörni Helga Sævarssyni (miðja) upphæðina sem safnaðist á Herrakvöldi Hængs.

Styrktu Unghugahóp Grófarinnar um tæplega milljón króna

Herrakvöld Lionsklúbbsins Hængs var haldið þann 9. nóvember sl. Allur ágóði kvöldsins var ætlaður til Grófarinnar – Geðverndunarmiðstöðvar fyrir þarfa uppbyggingu á aðstöðu fyrir Unghugahóp félagsins. Margt var um manninn á herrakvöldinu og safnaðist hátt í eina milljón króna, með bæði aðgangseyri og happdrættismiðum.

Í gær, miðvikudaginn 21. nóvember, fékk Lionsklúbburinn Hængur til sín góða gesti frá Unghugahóp Grófarinnar – Geðverndarmiðstöðvar sem tóku við afrakstrinum af Herrakvöldinu. Þeir Fjörnir Helgi Sævarsson og Richard Bouman, formannsteymi Unghuga, tóku við styrknum úr hendi formanns Lionsklúbbsins Hængs, Þórólfs Egilssonar, sem hljóðaði upp á 850.000 kr.

Í ræðu sinni í gær sagði Björn Guðmundsson, formaður herrakvöldsnefndar, það mikinn heiður fyrir Lionsklúbbinn Hæng að geta lagt mikilvægum málaflokki lið í nærsamfélaginu okkar. Markmið Unghuga er að skapa vinalegt umhverfi fyrir einstaklinga sem glíma við geðræn vandamál og / eða félagslega einangrun, þar sem þeir geta unnið í sínum vandamálum og rofið félagslega einangrun í gegnum fundi og aðra viðburði.

Aðspurð sagði Valdís Eyja Pálsdóttir, forstöðumaður Grófarinnar, að fénu verði varið til að breyta núverandi hráu geymslurými í vistlega félagsaðstöðu fyrir unghuga Grófarinnar. Stefnt er að því að mála veggi, leggja gólfefni, fjölga rafmagnstenglum og bæta lýsingu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó