NTC

Stuð og stemning á skólasetningu MA

Stuð og stemning á skólasetningu MA

Mikill mannfjöldi var samankominn í Kvosinni í Menntaskólanum á Akureyri í gærmorgun þegar skólinn var settur. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Menntaskólans sem má lesa hér að neðan:

Skólameistari Karl Frímannsson bauð gesti velkomna og sagði nokkur vel valin orð áður en hljómsveitin Feelnik steig á stokk. Hljómsveitina skipa þeir Adam Jóseph Crumpton, Axel Vestmann, Elías Guðjónsson Krysiak, Ívar Leó Hauksson og Valdimar Kolka. Eftir kröftugan flutning á Kennarasleikju, frumsömdu lagi þeirra félaga, var komið að ræðu skólameistara.

Karl beindi orðum sínum sérstaklega að nemendum skólans. Hann minnti þá á góð gildi í námi svo sem ábyrgð, frumkvæði og ástundun og að hlutverk starfsfólks í MA væri að hjálpa nemendum að verða góðir námsmenn en ekki síður farsælar manneskjur. Hann kom inn á jákvæð og neikvæð áhrif þess að lifa og hrærast í stafrænum heimi. Tæknin byði upp á ýmsa spennandi möguleika í námi sem rétt væri að nýta en hvatti jafnframt nemendur til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um notkun samskiptamiðla eða snjalltækja sem væru farsælar fyrir þá. Þá brýndi Karl fyrir nemendum að vanda málfar í ræðu og riti, ástunda heilsusamlegt líferni og bera virðingu fyrir umhverfinu. Að lokum minnti Karl á merkileg tímamót sem framundan eru í sögu skólans. Gamli skóli verður 120 ára í haust og verður tímamótanna minnst þegar þar að kemur.

Eftir ræðu skólameistara flutti Feelnik lagið Barfly, vinsælasta lag íslensku rokkhljómsveitarinnar Jeff who? Lokakafli lagsins býður upp á þátttöku í sal og það nýttu meðlimir Feelnik sér í Kvosinni í dag. Þeir keyrðu upp fjörið, fengu salinn með sér og stýrðu samsöng eða öllu heldur söngkeppni milli hópa með tilheyrandi stemningu. Hressandi byrjun á skólaárinu hjá félögunum í Feelnik. Í kjölfarið setti skólameistari Menntaskólann á Akureyri í 145. sinn. Að lokinni skólasetningu hittust nemendur og umsjónarkennarar í 1. og 2. bekk á meðan forráðafólk nemenda sat kynningarfund.

Að þessu sinni eru tæplega 600 nemendur skráðir í skólann í 23 bekkjum. Nýnemar eru 180 talsins og raðast þeir niður á sjö bekki. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 22. ágúst. Fyrstu dagar skólaársins verða að miklu leyti tileinkaðir nýjum nemendum skólans með árvissum viðburðum eins og nýnemamóttöku, nýnemagöngu og nýnemaballi.

Gleðilegt nýtt skólaár.

Sambíó

UMMÆLI