NTC

Strandmenningarhátíð á Siglufirði hefst í dag

mynd og frett fengin af fjallabyggd.is

Dagana 4. – 8. júlí fer fram Norræn Strandmenningarhátíð á Siglufirði. Um er að ræða sjöundu strandmenningarhátíðina en sú fyrsta fór fram á Húsavík árið 2011. Síðan þá hefur hátíðin verið haldin í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Álandseyjum og Færeyjum.

Búist er við fjölda þátttakenda frá Norðurlöndunum sem og Íslandi. Færeyingar hafa boðað komu sína og hyggjast koma með grindabáta, í þeim tilgangi að sigla þeim og kynna fyrir hátíðargestum. Grænlendingar senda tónlistarfólk og trommudansara til þátttöku. Norðmenn áforma að sigla ólíkum skipum á hátíðina auk þess sem bátasmiðir, tónlistar- og handverksfólk hefur boðað komu sína. Í samstarfi við Bohuslän Museum í Uddevalla í Svíþjóð verður sett upp sögusýning á Síldarminjasafninu um síldveiðar Svía við Íslandsstrendur og sér í lagi við Siglufjörð. Svíar munu jafnframt senda kaðlagerðarfólk og fyrirlesara á hátíðina. Þá er á dagskrá að bjóða hátíðargestum að bragða á ýmisskonar síld á opnu hlaðborði. Danir munu miðla sögu freigáturnnar Jylland sem færði okkur Íslendingum stjórnarskrána og Álendingar segja frá viðhaldi og varðveislu Pommern. Vonir eru bundnar við að fjöldi báta og skipa komi sjóleiðis til Siglufjarðar þessa daga, bæði frá Norðurlöndunum og víðs vegar frá Íslandi. Siglfirskar síldarstúlkur munu salta síld á planinu við Róaldsbrakka og stranda þannig vörð um gömlu verkþekkinguna. Boðið verður upp á bátasmíðanámskeið í gamla Slippnum og tveggja daga málþing fer fram í Gránu, um varðveislu og viðhald báta og skráningu súðbyrðings á heimsminjaskrá UNESCO auk þess sem fróðlegir fyrirlestrar verða á dagskrá í Bókasafninu.

Þátttaka Íslendinga verður fjölbreytt og má nefna siglingaklúbba landsins, eldsmiði sem munu leika listir sínar, handverksfólk vinnur með ull, roð, æðardún, riðar net og fleira, bátasmiðir verða við vinnu og tónlistarfólk kætir lund með söng- og hljóðfæraleik. Einnig hafa verða á staðnum fulltrúar frá Króatíu og miðla broti af eigin strandmenningu.

Það sem gerir þessa strandmeningarhátíð svo sérstaka eru hin sterku norrænu tengsl við Siglufjörð, en fullyrða má að Siglufjörður sé eini staðurinn á landinu þar sem allar norrænu þjóðirnar eiga sín spor og tengist sögulega. Hér voru Norðmenn, Danir, Finnar, Svíar og Færeyingar við síldveiðar og tóku þátt í uppbyggingu staðarins og síldariðnaðarins.

Árið 2018 er sannkallað afmælis- og hátíðarár á Siglufirði, en bærinn fagnaði 100 ára kaupstaðarmæli þann 20. maí sl. auk þess sem hátíðin er hluti af afmælisdagskrá 100 ára fullveldis Íslands. Strandmenningarhátíðin fer fram í samstarfi Vitafélagsins, Norrænu strandmenningarfélaganna, Síldarminjasafns Íslands, Þjóðlagahátíðar og Fjallabyggðar. Árleg Þjóðlagahátíð fer fram samtímis Strandmenningarhátíðinni en þemað að þessu sinni verður Tónlist við haf og strönd. Það er því von á fjölbreyttri, fræðandi og skemmtilegri hátíð!

Dagskrána má skoða hérna

frétt fengin af fjallabyggd.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó