NTC

Stóri, feiti kötturinn sem elti og lék við alla krakkana sem bjuggu í Norðurbyggð

Stóri, feiti kötturinn sem elti og lék við alla krakkana sem bjuggu í Norðurbyggð

Mía Svavarsdóttir skrifar:

Þegar ég var eins árs þá kom pabbi heim með kött frá sveitabæ. Pabbi sagði alltaf að þessi köttur hafi valið okkur þar sem hann hljóp beint í fangið á pabba þegar hann var mættur til þess að skoða kettlingana. Við nefndum köttinn Smára því hann var svo smágerður og lítill. 

Eftir að Smári kom í fjölskylduna varð heimilislífið allt öðruvísi. Hann gaf okkur svo mikla hamingju. Hann breyttist hratt og var ekki svo smágerður lengur heldur vel yfir meðalþyngd. Ekki leið á löngu þangað til Smári var búinn að geta sér orð í hverfinu. Stóri, feiti kötturinn sem elti og lék við alla krakkana sem bjuggu í Norðurbyggð. 

Síðan liðu 17 ár og Smári, var enn konungur hverfisins. Margir þekktu til Smára og hann kíkti oft í heimsókn til fjölskyldunnar sem bjó við hliðina á okkur. Þar voru ungir krakkar, sem fundust ekki lengur á okkar heimili, en Smári hafði mjög gaman af því að vera í kringum krakka. Á því heimili vann móðir krakkanna næturvaktir og þar sá Smári gullið tækifæri. Þegar allir á okkar heimili fóru í vinnu eða skólann á daginn þá gat Smári hlaupið yfir í næsta hús og kúrt með henni á daginn en var fljótur að forða sér þegar eiginmaðurinn kom heim. Smári vakti mjög mikla lukku á þessu heimili.  

Sjá einnig: Mótmæla banni lausagöngu katta á Akureyri

Á 18. árinu hans ákvað hann að segja þetta gott. Hann hafði vakið mikla athygli í hverfinu og var orðinn lúinn. Þegar hann fór frá okkur var ekki bara sorg á okkar heimili heldur í öllu hverfinu og víðar. Við fengum endalaust af skilaboðum um hversu mikla gleði Smári hefði gefið öðru fólki og að þau myndu sakna hans, þrátt fyrir að hann hefði verið með ljóta hárbrúska á bakinu. 

Í vikunni ákvað bæjarstjórn Akureyrar að setja nýjar reglur sem kom mörgum bæjarbúum verulega á óvart. Þessar nýju reglur kveða á um að lausaganga katta verði bönnuð á Akureyri árið 2025. Með þeim verða ekki fleiri sögur eins og sagan hans Smára. Eða alla vega ekki eins. 

Kisur gefa miklu fleiri einstaklingum hlýju og gleði en bara eigendum þeirra. Oft á dag kemur einhver heim með bros á vör, fullorðin eða ung manneskja og segir frá kisunum sem urðu á vegi hennar úti á götunni. 

Síðan bæjarstjórnin tilkynnti þessa nýju ákvörðun hefur mikil umræða átt sér stað. Fólk er annaðhvort á móti þessu eða með.  Ég skil fullkomlega að sumir vilji ekki fá kisur inn til sín eða að þær skíti í blómabeð þeirra. En ég hugsa með mér hvort ekki séu fleiri dýr sem vafra um garðinn manns og skíta þar rétt eins og kisur? 

Það er ekki í eðli kisanna að vera lokaðar inni eins og bent var í í ályktun Dýralæknafélags Íslands. Það er í eðli þeirra að fá að ganga frjálsar og skoða sig um. Að loka þær inni getur leitt til hegðunarvandamála, þunglyndis og þyngdaraukningar. 

Látum við okkur ekki annt um velferð kattanna eins og annarra dýra þótt þeir komi óboðnir í garðana okkar? Eru við ekki dýravinir? 

Það er ekki hægt að bera saman hunda og ketti. Hundar lifa eftir röð og reglu og hlýða frekar en kisurnar. Því miður veiða kettir fugla. En gjarnan ná þeir helst fuglum sem eru meiddir eða veikir. Kisur eru ekki það klár veiðidýr en aftur á móti veiða fuglar líka fugla. Það eru ekki kettirnir sem eru að útrýma fuglalífi heldur er það frekar við okkur mennina að sakast. Við veiðum fugla og við eyðileggjum lífsskilyrði þeirra með því að menga jörðina okkar. 

Mér er annt um kisur á Akureyri og þeirra velferð. Mér finnst gaman að mæta kisum úti á götu, fylgjast með þeim og ég hugsa með sjálfri mér: “Hvar endar þetta? Ætlum við mannfólkið að banna öllum dýrum að ganga um laus sem fara smá í taugarnar á okkur? Þau eiga heima á jörðinni rétt eins og við.”

Ef þú ert sammála mér máttu endilega skrifa undir þennan undirskriftalista. Berjumst fyrir frelsi katta á Akureyri og hvetjum bæjarstjórnina til að endurskoða þessa ákvörðun!

Sambíó

UMMÆLI