Árshátíð Menntaskólans á Akureyri er stærsti viðburður sem nemendafélag skólans heldur ár hvert. Árshátíðin er yfirleitt haldin í lok nóvember og hefur undanfarin ár verið í íþróttahöllinni. Þá vinnur skólafélagið Huginn hörðum höndum, í samvinnu við nemendur skólans, að því að gera árshátíðina sem glæsilega. Nemendur sjá fyrir skemmtiatriðum meðan á borðhaldi stendur og ævinlega eru fengnar stórar hljómsveitir til að spila á ballinu sem fylgir strax á eftir. Árlega spila Þuríður og hásetarnir einnig á efri hæðinni svo að nemendur og kennarar geti spreytt sig í gömlu dönsunum.
Nú hafa tónlistarmennirnir í ár verið kynntir og það eru engin lítil nöfn. Hljómsveitin í Svörtum fötum kemur til með að byrja ballið og á eftir fylgja rappararnir Joey Christ, Birnir og Floni. Nú hefur Birgitta Haukdal einnig bæst í hópinn og mun spila á eftir Svörtum fötum, áður en rappararnir stíga á svið.
UMMÆLI