Stöndum vörð um velferð allra

Stöndum vörð um velferð allra

Elsa María Guðmundsdóttir skrifar

Eitt stærsta verkefni á borði sveitarfélaga eru velferðarmál. Velferð, vellíðan og mannréttindi allra einstaklinga eru forgangsmál sem Samfylkingin mun halda áfram að beita sér sérstaklega fyrir. Málaflokkur fólks með fjölþættar stuðningsþarfir heyrir nú undir sameinað velferðarsvið Akureyrarbæjar, var áður tvískipt í búsetu- og fjölskyldusvið.  Sameiningin var gerð með það fyrir augum að bæta þjónustu sviðsins. Mikil þróun og vinna hefur farið fram allt frá því að málaflokkurinn var færður alfarið yfir til sveitarfélaganna árið 2011 og ljóst er að margt hefur áunnist. Stærsta áskorunin er þó sú að málefni fatlaðs fólks hafa verið vanfjármögnuð af hendi ríkisins frá upphafi og samkvæmt Sigurði Snævarr, hagfræðingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í grein í Fréttablaðinu frá 7.5.2022, þá er það stærsta úrlausnarefni í fjármálum sveitarfélaga.

Samfylkingin hefur veitt forstöðu í velferðarráði þar sem mörg þörf og brýn mál hafa fengið farsæla niðurstöðu en ýmislegt er þó ógert. Gerð var úttekt á fjölmörgum  þáttum þjónustunnar og nú er unnið að úrbótum á meirihluta þeirra atriða sem þar komu fram. Eitt stærsta úrlausnarefni á komandi árum eru húsnæðismál, en í því samhengi var unnin skýrsla til að meta framtíðarþörf og afar brýnt er og algjört forgangsmál að hraða þeim framkvæmdum til að stytta tíma á biðlistum og koma þaki yfir þau sem nú þegar bíða. Til þess að það geti orðið að veruleika þarf skýra forgangsröðun, raunhæfa fjárhagsáætlun og samstillt átak þeirra flokka sem munu koma að málum eftir kosningar. Samfylkingin mun beita sér sérstaklega í fyrrgreindum þáttum til farsælla lausna.

Þörfin fyrir fjölbreytni í dagþjónustu fyrir fólk með fjölþættar stuðningsþarfir er einnig mikil.  Á Akureyri er unnið afar faglegt og fjölbreytt starf í Skógarlundi, miðstöð virkni og hæfingar, en húsnæðið er of lítið og kanna  þarf möguleika á stækkun til að koma enn frekar til móts við þennan hóp. Á Plastiðjuna Bjarg sækir einnig þjónustu stór hópur fólks með skerta vinnugetu og mikilvægt er að standa vörð um þá starfsemi. Einnig þarf að skoða sérstaklega þau tilboð sem Akureyrarbær stendur að yfir sumartímann , t.d. sumarvinna með stuðningi fyrir ungmenni og kanna þarf möguleika á sumardvöl fyrir þennan hóp.

Ein stærsta áskorun næsta kjörtímabils verður því að viðhalda góðri þjónustu við fólk með fjölþættar stuðningsþarfir, bæta í þar sem nauðsynlegt er og leita allra leiða til að sækja aukið fjármagn  til ríkisins. Leiðarljós Samfylkingarinnar í bæjarstjórn verður  ávallt að standa sem best vörð um lögbundið hlutverk sitt með mannréttindi og velferð allra í huga.

Elsa María Guðmundsdóttir, kennari, skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

VG

UMMÆLI