Stofnuðu nýja skartgripalínu í Kaupmannahöfn frá grunni – „Við viljum gera skartgripaheiminn sjálfbærari“

Stofnuðu nýja skartgripalínu í Kaupmannahöfn frá grunni – „Við viljum gera skartgripaheiminn sjálfbærari“

Sigríður Ólafsdóttir stofnaði á dögunum glænýtt skartgripafyrirtæki í Kaupmannahöfn ásamt þremur dönskum skólasystrum sínum. Sigríður er Akureyringur en stundar nú nám við háskólann KEA í Kaupmannahöfn eða Copenhagen School of Design and Technology. Þar er hún að læra skartgripahönnun frá vöru til sölu en þar er kennt allt frá því að búa til skartgripi og síðan selja þá á keppnishörðum markaði. Sigríður er núna á sinni fjórðu önn í náminu þar sem lögð er áhersla á frumkvöðlastarfsemi en önnin heitir einfaldlega: Entrepreneur.

Sigríður Ólafsdóttir er ein af hönnuðunum og eigandi CHAIN REACTION.

Endurvinna silfur í alla skartgripalínuna

Það má með sanni segja að Sigríður og bekkjarfélagar hennar taki heiti annarinnar alvarlega en þær stofnuðu fyrirtækið CHAIN REACTION á dögunum sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Sigríður Ólafsdóttir, Cecilie Eilgaard, Molly Ane Vejlø Hartvith og Rikke Petersen eru stofnendur og hönnuðirnir bakvið fyrirtækið sem hefur vakið talsverða athygli bæði fyrir markaðssetningu og gæði skartgripana en dömurnar gera allt sem tengist fyrirtækinu og línunni sjálfar. Það sem merkilegast þykir er að hópurinn einblínir sérstaklega á að vera eins sjálfbært fyrirtæki og hægt er, m.a með því að nota endurunnið Sterling Silfur í skartið.

Planta trjám fyrir hver kaup – „Skartgripaheimurinn í dag er ekki sérlega sjálfbær en við viljum breyta því eins og við getum“

Eins og fyrr sagði heitir fyrirtækið CHAIN REACTION og selur skartgripi úr stórum keðjum og svokölluðum „charms“ sem mætti lauslega þýða sem steinar á íslensku. Innblásturinn að línunni fá hönnuðirnir frá gróðurhúsaáhrifunum. „Við fáum innblástur frá bráðnun ísjaka og viljum fá fólk til að hugsa meira um loftlagsbreytingar og þá litlu hluti sem við getum gert í daglegu lífi til að hjálpa til,“ segir Sigríður og bætir við að skartgripaheimurinn í dag sé ekki mjög sjálfbær en það sé eitthvað sem þær vilji sérstaklega breyta.

Glacier collection.

„Skartgripaheimurinn í dag er ekki sérlega sjálfbær en við reynum að vera eins sjálfbært fyrirtæki og hægt er. Við notum því endurunnið Sterling silfur í skartið og allar pakkningar sem við notum eru úr eco-pappa. Svo fyrir hvert „charm“ sem við seljum plöntum við einu tré. Svo að ef þú kaupir t.d. hálsmen sem er með 5 charms þá plöntum við 5 trjám fyrir þig.“

Námið á sér enga hliðstæðu í heiminum

Aðspurð hvort að Sigríður hafi íhugað að læra skartgripahönnun hérlendis segir hún KEA í Kaupmannahöfn alltaf bara komið til greina, námið eigi sér enga hliðstæðu í heiminum.
„Þetta nám er algjörlega einstakt og þetta er eini skólinn í heiminum sem er með nákvæmlega þessa samsetningu af námi. Mér finnst mjög mikilvægt að læra ekki bara hönnun og handverk, heldur líka markaðssetningu, viðskiptafræði og tækni eins og 3d prentun (þrívíddarprentun), svo þegar ég útskrifast hef ég marga möguleika á vinnumarkaði,“ segir Sigríður.

Eins og er stendur ekki til að selja línuna á Íslandi í búðum en hægt er að kaupa skartgripina á heimasíðu fyrirtækisins. Um helgina stóð fyrirtækið fyrir svokallaðri „pop-up“ búð í miðbæ Kaupmannahafnar sem gekk fram úr öllum vonum. Auk þess er verið að selja línuna í vintage-búðinni KEIKO í Kaupmannahöfn einnig. Ljóst er að skartgripaiðnaðurinn er í góðum höndum með þessa frumkvöðla í fararbroddi.

Sambíó

UMMÆLI