Stígamót taka afstöðu í límmiðamálinu

Mynd: nutiminn.is.
Þórunn Antonía ásamt Jóni Viðari og Gunnari Nelson með nýju límmiðana.

Límmiðarnir sem Þórunn Antonía, söngkona og athafnakona, kynnti landsmönnum í vikunni hafa skapað gríðarlega háværa umræðu í samfélaginu þar sem fólk virðist ekki sammála um boðskap vörunnar. Þó nokkuð margir feminístar, þ.á.m. Hildur Lilliendahl, hafa sagt þessa nýju vöru varpa ábyrgðinni enn eina ferðina yfir á þolendur á meðan aðrir hlyntir vörunni segja hana svipaða forvörn og að læsa húsinu sínu til þess að verða ekki rændur. Ljóst er að ekki allir eru sammála. Stígamót sendi frá sér tilkynningu vegna málsins á facebook í dag. Hana má sjá í heild sinni hér að neðan:

Límmiðaumræðan áhugaverða

Þau eru orðin ansi mörg árin síðan við á Stígamótum fórum að tala um að hálfsannleikur gæti verið hættulegur og stundum væri hann verri en enginn. Þetta var á þeim árum sem forvarnir beindust nær undantekningarlaust að því hvað stúlkur ættu að gera til þess að láta ekki nauðga sér. Dæmin voru ótal mörg og nokkur lýsandi eru t.d. það sem þáverandi yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar sagði í blaðaviðtali um nauðganir:
„Oftar en ekki eru þessi mál tengd mikilli áfengisnotkun og ekki á ábyrgð neins nema viðkomandi sem er útsettur fyrir því að lenda í einhverjum vandræðum. Það er erfitt hvað það er algengt að fólk bendir alltaf á einhverja aðra og reynir að koma ábyrgðinni yfir á þá. Fólk ætti kannski að líta oftar í eigin barm og bera ábyrgð á sjálfu sér.“ DV 16.8.2010

Annað dæmi var vinkona mín kennarinn sem hafði áhyggjur af kynferðisofbeldi og bar mér þau skilaboð að skólinn hennar vildi smala saman stelpunum í 7.-10. bekk og fá mig til þess að tala við þær.Hún gæti gert eitthvað skemmtilegt með strákunum á meðan. Mér þykir undurvænt um hana og ég veit að hún vildi svo vel. Ég bað hana að fara með stelpurnar á kaffihús á meðan ég ræddi við strákana, en niðurstaðan var að ég talaði að sjálfsögðu við alla krakkana.

Auglýsing frá Lýðheilsustofnun frá 2009 kynnti átak til þess að minnka unglingadrykkju:

í auglýsingu stofnunarinnar sagði m.a. „Ef þú drekkur ekki, þá áttu síður á hættu að verða fyrir ofbeldi s.s. barsmíðum eða nauðgun.“ og auglýsingin var skreytt með mynd af ungri stúlku. Munum að falda námsefnið felst í myndefninu. Er verið að tala til ungs fólks? Eða bara til ungra stúlkna? Sérlega merkileg fræðsla miðað við tölur Stígamóta um að tveir af hverjum þremur nauðgurum eru í annarlegu ástandi þegar þeir nauðga. Lýðheilsustofnun skuldar okkur öllum að verja skattpeningunum okkar í að ávarpa líka unga menn með orðunum: „Ef þú drekkur ekki, áttu síður á hættu að beita ofbeldi s.s. nauðgunum“ og skreyta auglýsinguna með mynd af ungum manni. Hvers vegna er það svona óþægilegt?

Ég hef ótal sinnum hugsað að nú hljóti boðskapurinn að vera orðinn úreltur, við séum komin lengra. Það hafa ansi margir komist miklu lengra í að að skoða heildarmyndina; það eru kynferðisbrotamenn sem beita kynferðisofbeldi og bera á því alla ábyrgð. Beinum sjónum að því til þess að uppræta ofbeldið. Druslugangan hefur stækkað og stækkað og á síðasta ári tóku 15 -20.000 manneskjur þátt í henni. Margar aðrar frábærar uppákomur hafa átt sér stað sem hafa glatt mikið. Má nefna brjóstabyltinguna, gulu og appelsínugulu andlitin á Facebook, 39 Stígamótastelpur og stráka sem stigu fram á síðasta ári og vörpuðu af sér ábyrgðinni á að hafa verið beitt kynferðisofbeldi og margt fleira mætti telja.

Enn einu sinni stígur fram hugsjónakona sem sannarlega vill koma í veg fyrir ofbeldi og það er virðingarvert. En hún hefur heldur ekki heildarmyndina í huga og fellur í þá algengu gildru að sjá aðeins fyrir sér hvað konur geti gert til þess að passa sig án þess að gera tilraun til þess að hreyfa við þeim sem bera ábyrgðina. Það er skekkt mynd af raunveruleikanum. Það er ekki óeðlilegt að það hafi skapað viðbrögð, sérstaklega á meðal þeirra sem hafa lagt mikið á sig til þess að skapa vitundarvakningu. Hlustum hvert á annað og skiptumst á skoðunum og þokum umræðunni í rétta átt.

Á síðasta ári má segja að geisað hafi nauðgunarfaraldur. Á Stígamótum sögðu 213 manns frá 293 nauðgunum, þar af 29 hópnauðgunum og 27 lyfjanauðgunum. Við höfum kallað eftir þjóðarátaki gegn þessum grófu mannréttindabrotum og það síðasta sem við viljum gera er að standa í vegi fyrir öllu því sem verða mætti til þess að draga úr ofbeldinu.
Þegar við skoðum tölfræðina okkar yfir það hverjir nauðga, kemur í ljós að þeir hættulegustu eru vinir og kunningjar. Það voru 133 svokallaðir vinir og kunningjar sem nauðguðu okkar fólki í fyrra. Ókunnugir voru 72 eða næstum helmingi færri. Ætla má að stúlkur – því oftast er um stúlkur að ræða – treysti vinum sínum og taki fagnandi á móti þeim drykkjum sem þeir kunna að bjóða þeim uppá. Af 27 einstaklingum sem leituðu til okkar vegna lyfjanauðgana voru 24 konur og þrír karlar. Vinirnir gætu þess vegna verið búnir að setja límmiða yfir glasið sem þeir rétta þessum vinkonum sínum. Það segir sig sjálft að límmiðarnir eru veik og mögulega fölsk vörn fyrir okkar fólk.

Markvissar forvarnir gegn kynferðisofbeldi þurfa að snúast í miklu meira mæli að drengjum og körlum á öllum aldri. Við skulum ekki ganga svo langt í skilningi okkar á kynferðisofbeldi að afkynja það líka, þó vitað sé að karlar séu líka beittir kynferðisofbeldi og að konur geti líka beitt því. Hlutföllin tala sínu máli. Það er staðreynd að vegna þess að mikill meiri hluti kynferðisbrota eru framin af körlum þá varpar það tortryggni á alla karla. Ef ég væri karl þætti mér það óþolandi. Karlar þurfa að sameinast okkur í baráttunni, hafna hátt og skýrt þessari afskræmingu á karlmennsku og kynlífi, hafna klámvæðingu og gera ljúflinga að fyrirmyndum. Það eru ánægjuleg teikn á lofti í gróskumiklu starfi femínistafélaganna um að næsta kynslóð taki betur á málum en við hin eldri.

Í þessari svokölluðu jafnréttisparadís, er óbærilegt að kynferðisofbeldi sé svona algengt. Ef það er eitthvað sem við getum sameinast um þá er það baráttan gegn því. En við verðum að vanda okkur, hafa heildarmyndina í huga og styðjast við þá þekkingu sem fyrir liggur.

Guðrún Jónsdóttir
talskona Stígamóta

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó