Fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2018 og árin 2019-2021 var samþykkt samhljóða í sveitarstjórn 7. desember sl. Áætlunin gerir sveitarfélaginu kleift að leggja í fjárfestingar- og viðhaldsverkefni án lántöku og endurspeglar ábyrgan rekstur Eyjafjarðarsveitar síðustu ár.
Mörg verkefni eru á döfinni fyrir komandi ár og má þar helst nefna nýjan hjólreiða- og göngustíg frá Hrafnagilshverfi að Akureyri en fyrsta skóflustungan var tekin í september sl. Stefnt er að því að stígurinn verði tilbúinn í byrjun sumars 2018 og bíða margir hjólreiðamenn og göngugarpar spenntir eftir viðbótinni en mikil uppbygging hefur átt sér stað í göngu- og hjólreiðastígsmálum á Akureyri og nágrenni undanfarin ár.
Ljósleiðari á öll heimili
Til viðbótar verður lokið við lagningu ljósleiðara um allt sveitarfélagið 2018 svo að öll heimili sveitarinnar geta tengst ljósneti. Um þessar mundir eru einnig 19 íbúðir í byggingu við Bakkatröð í Hrafnagilshverfi og gert er ráð fyrir því að þær verði fullbúnar sumarið 2018. Nútímavæðing Hrafnagilsskóla er enn eitt verkefni Eyjafjarðarsveitar á næsta ári, þar sem keyptur verður nýr tölvubúnaður fyrir kennara og nemendur og gerir skólanum þ.a.l. kleift að innleiða nýja kennsluhætti. Þá er áætlað að nemendur fái áfram námsgögn í skólanum án endurgjalds, líkt og sl. haust.
Fréttin birtist upphaflega í fyrsta tölublaði Norðurlands 14. desember.
UMMÆLI