NTC

Steiney Skúla – „Erum nú þegar byrjuð að tindersvæpa á Akureyri“

Mynd: Móa Hjartardóttir

Mynd: Móa Hjartardóttir

Eins og Kaffið greindi frá fyrr í dag er Improv Ísland á leiðinni norður með sýningu. Kaffið.is náði tali af Steiney Skúladóttur þar sem hún var í bíl á leiðinni norður til að sýna með hópnum. Þetta er í annað sinn sem hópurinn sýnir á Akureyri en þau sýna vikulega í Þjóðleikhúskjallaranum. Síðastliðið ár sýndi hópurinn yfir 100 sýningar og var tilnefndur til Grímuverðlaunanna sem sproti ársins. Ólíkt öðrum leiksýningum geta áhorfendur komið aftur og aftur, því engar tvær sýningar eru eins.

Ætla fara í sund og á Götubarinn
„Við erum svo spennt að koma því það var svo sjúklega gaman í fyrra. Það er náttúrulega mjög mikil stemmning að sýna í goðsagnakennda Samkomuhúsinu, svo er bara svo gaman á Akureyri! Hápunkturinn í fyrra var þegar ölvaður maður, sem hafði verið gjörsamlega óþolandi að böggast í einhverjum stelpum á Pósthúsbarnum hóf að grænda hann Pálma okkar, sem er með mjög sítt hár. Svipurinn á manninum þegar hinn fúlskeggjaði Pálmi sneri sér við var óborganlegur,“
segir Steiney

En ætlar hópurinn að nýta ferðina norður í meira en vinnu?
„Við notum ferðina í æfingar og að hrista hópinn saman fyrir næstu sýningatörn í Reykjavík sem byrjar 8.febrúar. Margrét Maack ætlar líka að nýta ferðina og hrista konur í Beyoncédansi…. Svo förum við auðvitað í sund og kíkjum á Götubarinn. Planið er svo að sjálfsögðu reyna að koma Pálma aftur á séns… já og öðrum í hópnum. Við erum að keyra núna og erum byrjuð að tindersvæpa nú þegar á Akureyri.“

Frá sýningu Improv Ísland

Frá sýningu Improv Ísland

 

Lofa hlátri og gleði
Aðspurð um hvernig sýningin muni verða svarar Steiney með nokkurri óvissu, enda sýningin þannig uppbyggð. „Það veit það enginn og mjög mikið undir áhorfendum komið. Þetta virkar þannig að við fáum tillögu frá áhorfendum og út frá því búum við til leiksýningu eða söngleik. Við getum lofað hlátursköstum og óvæntum atriðum, en við sjálf höfum ekki hugmynd um hvað við munum gera eða segja. Þetta er stórhættulegt sport!“

Steiney er líka einn af meðlimum Reykjavíkurdætra og við spurðum hana hvort rappið  hafi hjálpað henni í spunanum
„Já upp á það að í spunanum er manni kennt að trúa á hugmyndirnar sínar og að vera sjálfsöruggur sem nýtist í rappinu. Ég er samt merkilega léleg að ríma í söngleikjaspunanum, en það er að koma. Við fórum líka nokkur á rappspunanámskeið í haust hjá Baby Wants Candy. Það er ruglað. Það er á dagskránni að verða ógeðslega góð í að freestyle-a þótt ég gæti það ekki til að bjarga lífi mínu núna.“ 

Improv Ísland sýnir í Samkomuhúsinu laugardagskvöldið 21. janúar og Steiney rappar svo með Reykjavíkurdætrum á Græna hattinum helgina eftir.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó