Von er á fyrsta skemmtiferðaskipi ársins til Akureyrar næstkomandi laugardag, 1. apríl. Þar verður á ferðinni skipið Bolette með rétt um 1.400 farþega og 600 manna áhöfn.
Það stefnir í metsumar hvað varðar komu skipa og farþega þeirra. Spáð er um 25 prósent fjölgun gesta með skemmtiferðaskipum frá því sem var fyrir heimsfaraldur Covid-19 eða um 185.000 gestum núna á móti 150.000 árið 2019. Skipakomum til Eyjafjarðar fjölgar um á að giska 40 prósent. Þær voru 199 árið 2019 en verða um 280 í sumar með viðkomu á Akureyri, í Hrísey og Grímsey, og á Hjalteyri en þetta verður í fyrst sinn sem skemmtiferðaskip leggur leið sína til Hjalteyrar.
Á laugardag verður uppýsingamiðstöð ferðamanna einnig opnuð í Hofi. Í tilkynningu Akureyrarbæjar segir að Í upplýsingamiðstöðinni sé fyrst og fremst lögð áhersla á að miðla upplýsingum til ferðamanna um Akureyri og næsta nágrenni en ferðaþjónustuaðilar um allt Norðurlandi eru hvattir til að koma með kynningarefni sitt í Hof svo sé hægt að segja frá öðrum helstu dásemdum landshlutans. Opið verður alla daga frá klukkan 10 til 15 en afgreiðslutímin lengist í 8 til 16 yfir hásumarið, frá 1. júní til 31. ágúst.
Það eru Hafnasamlag Norðurlands, Menningarfélag Akureyrar, hönnunar- og gjafavöruverslunin Kista og Akureyrarbær sem hafa tekið höndum saman og standa að rekstri upplýsingamiðstöðvarinnar. Þetta er sami hópur og stóð að opnun hennar síðasta sumar en því miður varð að loka upplýsingamiðstöðinni fyrir þremur árum þegar ríkið hætti að styðja reksturinn með fjárframlagi sínu.
UMMÆLI