Stefán Elí og Rán vinna saman við lagið Hoping That You’re Lonely

Stefán Elí og Rán vinna saman við lagið Hoping That You’re Lonely

Föstudaginn 25. janúar sendi Stefán Elí frá sér splunkunýjan ópus sem ber heitið ‘Hoping That You’re Lonely’. Lagið samdi Stefán í samvinnu við RÁN (Rán Ringsted) sem ljáir laginu einnig sína prúðu rödd. Í upphafi vetrar tjáði Stefán okkur að hann stefndi á að gefa út eitt lag í mánuði og þetta er fjórða lag þess verkefnis. Verkefnið nefnir hann ‘break my heart so i know’.

‘Hoping That You’re Lonely’ varð til við ferðir Stefáns í Ameríku þar sem hann tók upp grunnhugmyndina að laginu.

“Ég hafði verið að fikta í hljóðgervli að skapa sánd og til mín kom hljómagangurinn. Í koll minn skaust svo aðal laglínuhugmyndin sem má heyra í ýmsum myndum út lagið. Mér reyndist ómögulegt að losna við laglínuna af heilanum og þá grunaði mig að í höndum mér lægi eitthvað sérstakt”

Stefán kom svo til Íslands á ný og hugsaði sér hve fallegt það yrði ef vinkona hans, Rán Ringsted, myndi einnig syngja lagið.

“Ég heyrði strax í Rán þegar ég áttaði mig á því hversu vel rödd hennar myndi passa við lagið. Ég sendi henni hugmyndina og spurði hvort hún væri ekki bara til í að hittast næsta dag til að semja og taka upp (ég á það til að vera heldur snar í snúningum 😉 ). Lukkulega sagðist hún fíla lagið mjög og næsta dag hittumst við, ásamt Birki Blæ, og sömdum það sem vantaði upp á textann. Strax á eftir tókum við upp sönginn hennar og ég varð yfir mig spenntur. Hún syngur svo yndislega að þegar ég hlustaði á upptökurnar þá vissi ég að lagið væri komið á annað þrep.”

Þetta er í fyrsta sinn sem rödd Ránar ómar um hallir Spotify en vonandi mun heyrast meira frá henni mjög bráðlega. Stefán Elí stefnir á að halda áfram við útgáfur sínar og hann hefur einnig gerst heldur iðinn við spilamennsku.

Hægt er að hlýða á nýja lagið á öllum helstu tónlistarveitum

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó