Starfsmenn félagsmiðstöðva með þarfir barna og ungmenna í fyrirrúmi

Starfsmenn félagsmiðstöðva með þarfir barna og ungmenna í fyrirrúmi

Ingunn Embla Kjartansdóttir skrifar:

Eftir að hafa verið nemandi í grunnskóla og starfsmaður í tveimur grunnskólum seinna meir, varð mér hugsað til starfsfólks félagsmiðstöðva og frístundasstarfs utan skóla. Þá sérstaklega um mikilvægi þess að það séu góðar fyrirmyndir og hvetji ungmenni til virkrar þátttöku, þar sem virðing og skemmtilegheit eru í fyrirrúmi. Af minni reynslu er starfsfólkið í félagsmiðstöðvum að vinna almennt mjög gott starf, þó auðvitað megi alltaf bæta sig. Ungmenni eru eins mismunandi og þau eru mörg, sumum finnst ekkert mál að mæta, hafa samskipti við aðra og plumma sig gríðarlega vel í þessu umhverfi. Aðrir eru jafnvel aðeins til baka, finnst erfiðara að mæta og glíma við einhvers konar kvíða eða félagsfælni. Þessi tiltekni hópur gæti orðið svolítið út úr og ekki tekið jafn mikinn þátt í félagslífinu. Það getur verið svolítið yfirþyrmandi að koma inn í félagsmiðstöð þar sem eru mjög margir krakkar saman, allir að gera mismunandi hluti.

Félagsmiðstöðvar og tómstundir lúta oft í lægra haldi fyrir skólanum og gleymist að þetta er partur af lífi ungmenna sem mótar þau mikið. Það skiptir miklu máli fyrir samskipti og félagslíf ungmenna á þessum viðkvæma aldri. Ef ungmennum gengur ekki vel að koma sér inn í einhvern hóp eða gengur yfir höfuð ekki vel að kynnast öðrum, gætu þau jafnvel orðið áhrifagjörn og meðvirk, einungis til að passa inn í einhvern hóp. Slæmur félagsskapur er eitthvað sem unglingar gætu leiðst út í. Þá er jafnvel um hópþrýsting að ræða og auðvelt er að villast af leið og leiðast út í eitthvað sem er ekki gott fyrir andlega né líkamlega heilsu.

Þess vegna tel ég gríðarlega mikilvægt að starfsfólk sé virkt í félagsmiðstöðvum, hvetji krakkana til heilbrigðra og góðra samskipta, dragi úr hópamyndun og sé með skipulagt og gott starf þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Ég tel mikilvægt að starfsfólk félagsmiðstöðva sé vakandi fyrir því hvað mætti betur fara og horfi alltaf gagnrýnum augum á sitt starf og annarra. Þess vegna ætti þetta starfsfólk að hafa menntun og það sem er jafnvel mikilvægara fyrir árangursríkara starf, reynslu til þess. Svo finnst mér gríðarlega mikilvægt að starfsfólkið nái vel til ungmennanna, án þess að verða of miklir vinir þar sem þau gera ekki greinarmun á starfsmanni og vini.

Ég tel það gæti orðið árangursríkt fyrir starfsfólkið að miðla sinni eigin reynslu frá lífinu til ungmenna, láta þau finna að hægt sé að treysta þeim og mynda sterk sambönd. Starfsmennirnir geta semsagt hlerað áhugasvið ungmennana og hvaða fræðslu og námskeiðum þau óska eftir.

Semsagt, starfsfólkið er mikilvægt ekki einungis fyrir skipulagið og slíkt heldur þarf það að hugsa um ungmennin og hve mismunandi einstaklingar þau eru. Þau þurfa að geta verið til staðar, tilbúin að hlusta og láta þau finna fyrir trausti og væntumþykju. Ungmenni sem sækja félagsmiðstöðvar þurfa að finna að þeir geti talað við starfsmenn og unnið úr sínum tilfinningum í samskiptum við aðra.

Greinin birtist upphaflega á Frítímanum – Veftímariti fagfólks í frítímaþjónustu

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó