Starfsfólk Bruggsmiðjunnar Kalda á Ársskógssandi afhentu nýlega Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis gjöf að upphæð 1.800.000 kr. Þessu greinir Vikudagur frá í dag.
Starfsfólk Bruggsmiðjunnar fékk hugmyndina í mars að brugga léttöl sem þau skýrðu VERTU KALDUR og láta gott af sér leiða með að gefa allan ágóða af sölunni til Krabbameinsfélagsins.
Ýmis fyrirtæki styrktu söfnunina með ýmsum framlögum, ss. Bruggsmiðjan Kaldi sem gaf allt hráefnið í léttölið, starfsfólkið gaf vinnuna sína við bruggunina og sölu, Þormóður Aðalbjörnsson gaf hönnunina á miðunum, Ásprent á Akureyri gaf alla miðana, Oddi og Samhentir gáfu umbúðir og Saga Medica gaf hvönnina sem notuð var í léttölið. Samskip gaf einnig allan flutning og Bros gaf boli með lógóinu VERTU KALDUR.
Agnes Sigurðardóttir, framkvæmdarstjóri Kalda, segir einnig í samtali við Vikudag að fjölmargir hafi styrkt verkefnið með kaupum á léttölinu og með beinum fjárstyrkjum. Þ.a.l. hafi þessi veglega upphæð safnast með framtakinu.
UMMÆLI