Háskólahátíð — brautskráning kandídata frá Háskólanum á Akureyri fór fram í þremur athöfnum í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri 9. og 10. júní. Samtals brautskráðust 537 kandídatar í grunn- og framhaldsnámi af tveimur fræðasviðum.
Föstudaginn 9. júní voru brautskráðir 166 kandídatar af framhaldsnámsstigi og laugardaginn 10. júní voru brautskráðir 371 kandídat í grunnnámi í tveimur athöfnum. Í þeirri fyrri voru brautskráðir kandídatar af Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviði og í þeirri seinni voru brautskráðir kandídatar af Hug- og félagsvísindasviði. Þetta kemur fram á vef skólans.
Í fyrsta skipti var brautskráð úr fagnámi til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða. Háskólinn á Akureyri er fyrsti háskólinn á Íslandi sem býður upp á námið en um er að ræða tveggja ára sveigjanlegt nám sem er skipulagt samhliða sjúkraliðastörfum þeirra sem stunda námið. Alls brautskráðust 20 kandídatar úr fagnáminu af kjörsviðinu öldrunar- og heimahjúkrun.
Ítarlega umfjöllun um brautskráninguna má finna á vef Háskólans á Akureyri.
UMMÆLI