Stærsta mót ársins hjá píludeild Þórs um næstu helgi – Aðstaðan sprungin

Stærsta mót ársins hjá píludeild Þórs um næstu helgi – Aðstaðan sprungin

Um næstu helgi stendur píludeild Þórs fyrir stórmótinu Akureyri Open. Mótið fer fram í aðstöðu píludeildarinnar í íþróttahúsinu við Laugargötu. Fullskráð er í mótið.

Keppt verður í einmenningi og tvímenningi í 501 pílu á föstudag og laugardag. Tvímenningur verður á föstudag og einmenningur á laugardag.

Píludeild Þórs biðlar til fólks um að láta vita sem allra fyrst, svo hægt sé að gera ráðstafanir. Vinsamlegast sendið póst á pila@thorsport.is ef þið þurfið að tilkynna forföll. Nánari upplýsingar fyrir keppendur má finna á vef Þórs með því að smella hér.

„Það eru ekki mörg ár síðan pílufólk í Þór kastaði pílum á miðhæð stúkunnar við Þórsvöllinn, við þröngan kost, þar sem rafíþróttadeildin hefur aðstöðu núna. Þegar kom að því að halda Akureyri Open fékk deildin að yfirtaka Hamar og fór mikil vinna í að flytja spjöld, skilrúm og fleira úr stúkunni yfir í Hamar, setja allt saman upp og taka svo niður aftur að móti loknu og flytja og setja aftur upp í stúkunni. Nú er öldin önnur og píludeildin hefur byggt upp frábæra aðstöðu fyrir pílukastið í Íþróttahúsinu við Laugargötu. En sú aðstaða er samt í raun sprungin utan af deildinni vegna þess hve hratt hún hefur vaxið og þeim fjölgað sem kasta pílum,“ segir á vef Þórs.

Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildarinnar, segir sannarlega vanta meira pláss. „Við erum búin að sprengja aðstöðuna okkar líkt og hún er í dag. Við erum með 16 spjöld sem rúma ekki þennan fjölda sem verður um helgina. Þess vegna erum við að dreifa keppninni á laugardeginum til að skapa nóg pláss fyrir keppni og upphitunarspjöld. Lítil aðstaða er fyrir fólk til að setjast niður og spjalla. Við þyrftum að hafa setustofu þar sem menn geta sest niður og spjallað saman við borð,“ sagði Davíð Örn í spjalli við heimasíðu Þórs. Hann bendir til dæmis á að þegar deildin heldur skemmtimót séu 50-70 manns sem mæti og taki þátt. Aðstaðan rúmi varla þann fjölda.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó