Staðalímynd átröskunar

Staðalímynd átröskunar

Átröskun. Hvað kemur upp í hugann? Ef til vill grindhoruð, ung stúlka sem þjáist af fullkomnunaráráttu? Gott ef hún er ekki dansari eða fimleikakona. Þetta er mynd sem flestir fá upp í hugann þegar þeir heyra orðið átröskun. En birtingarmynd átröskunar er margbreytileg. Einstaklingur þarf ekki að líkjast beinagrind til að teljast vera veikur. Eða að ná ákveðinni þyngd til að teljast vera með sjúkdóminn. Enda er þyngd bara eitt af mörgum einkennum sjúkdómsins. 

Samt sem áður á athyglin það til að beinast að kílótölunni. Margar konur hafa stigið fram og deilt batasögunni sinni en í mörgum tilvikum er þörf til að nefna lágmarksþyngd. Eins og til að réttlæta að viðkomandi hafi nú verið „nógu“ veikur. Átröskun er hins vegar ekki mæld í þyngd og alvarleikinn fer ekki eftir tölunni á vigtinni. Þetta eru andleg veikindi sem snúast um hugsun og hegðun. Einstaklingur með átröskun á í óheilbrigðu sambandi við mat, hreyfingu og líkama sinn. Það er það sem sjúkdómurinn snýst um, ekki ákveðið útlit eða tala á vigt. 

Það er mikilvægt að halda þessari umræðu á lofti af því að það þarf að eyða þessum misskilning. Þeim misskilning að maður þurfi að líta út á ákveðinn hátt eða ná ákveðinni þyngd til að geta fengið stimpilinn að vera með átröskun. Nei. Átröskun kemur í öllum stærðum og gerðum. Konur og karlar veikjast. Mjóir einstaklingar og feitir einstaklingar.  Allir eiga þeir jafnan rétt á að fá hjálp við sínum vanda. Vissulega er kerfið þannig að það grípur helst þá einstaklinga sem eru mest líkamlega veikir. Það er hins vegar meingallað því einstaklingar með sjúkdóminn á byrjunarstigi fá ekki viðeigandi hjálp og þurfa því oft að veikjast meira til að fá loks hjálp. Í fullkomnum heimi væri gripið inn í hjá fólki um leið og það upplifir erfiðleika í tengslum við matarvenjur. En því miður er raunin ekki sú. Alla vega ekki enn þá. 

Við breytum kannski ekki kerfinu á einu bretti en við getum breytt staðalímynd átröskunar. Í stað þess að sjá fyrir okkur granna stúlku birtist frekar mynd af hópi fólks sem er alls konar í útliti. Af því að í flestum tilvikum sést ekki utan á fólki hvort það er með átröskun eða ekki. 

Sambíó
Sambíó