Spiluðu á Selló á Ráðhústorgi

Spiluðu á Selló á Ráðhústorgi

Ásdís Arnardóttir, bæjarlistamaður Akureyrar árið 2020, gladdi gesti og gangandi á Ráðhústorgi í gær ásamt nemendum sínum.

Þau Hanna Lilja Arnardóttir, Daníel Egilsson, Þórelfa Gísladóttir, Emilía Guðjónsdóttir, Karolina Freitas, Lorenzo Baruchello og Reginn Egilsson spiluðu á Selló í miðbænum í hálftíma í gær.

Sjá einnig: Ásdís Arnardóttir er bæjarlistamaður Akureyrar 2020

„Mér fannst tilvalið að fara út og spila á Ráðhústorginu þar sem er nóg pláss og áhorfendur þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að koma of nálægt næsta manni. Þetta var líka sport fyrir okkur sellóleikarana. Við þurfum jú að sitja þegar við spilum og á torginu eru þessir fínu bekkir sem við nýttum. Þetta var líka hluti af vorhátíðinni okkar. Þegar við vorum búin að spila fórum við í ísbúðina og svo í útileiki, alveg þrusugóður dagur,“ segir Ásdís í samtali við Kaffið.is.

Nemendurnir eru hluti af Suzukisellóhópi Ásdísar í Tónlistarskólanum á Akureyri. Suzukikennsla byggir á aðferð japanska fiðluleikarans Shinichi Suzuki. Þetta er líka kallað móðurmálsaðferð.

„Foreldrar fylgja börnum eftir í tónlistarnáminu og læra líka að spila aðeins og verða þannig fyrirmyndir barna sinna. Í byrjun er leikið eftir eyra og þessi börn þjálfast mjög vel í því og eins og sést á myndunum þá erum við ekki með neinar nótur.  Hóp- og samspil er hluti af náminu og oft verður til góð vinátta,“ segir Ásdís.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó