Spikfeitur

Sigurður Guðmundsson skrifar

Ég var orðinn alveg ferlega feitur um áramótin. Var kominn á fremsta hlunn að fá tannlækni til að loka á mér kjaftinum með vírum svo ekkert kæmist inn nema eitthvað fljótandi. Hugsaði þá með mér að ekkert mál væri að bræða súkkulaði eða nota blandarann til að gera hnausþykkann hamborgara löðrandi í kokteilsósu að gómsætri súpu. Mér líður stundum einsog Tinna í einhverri bókinni. Engill á annarri öxlinni en skrattinn sjálfur á hinni. Hvíslandi mismunandi orðum í eyrun á mér til að rugla mig í ríminu. Ég hafði gert heiðarlega tilraun til að vera í ræktinni í hádegistímum með hópnum „hádegisgraðfolarnir“ hjá Dabba Kristins. Þeir tímar sköruðust verulega við matmálstíma undirritaðs og mætti ég tvisvar eða þrisvar. Það sem gerði útslagið í þessarri vitundarvakningu hjá mér var þegar kínverskur ferðamaður gekk að mér og ávarpaði mig á mandarín-kínversku. Mátti ljóst vera að hann hélt að ég væri samlandi hans, enda með sokkin og pírð augu eftir allt reykta kjötið í desember ásamt snert af skorpulifur sem gerði mig pínu gulan eftir fylliríð sem ég tók með strákunum á pókerkvöldi seint í desember. Sagði ég þessum kínverja að snáfa burt og láta mig í friði.

 

Ég var afar þungt hugsi og var mikið að spá í að hafa samband við skæruliðasamtökin „Líkamsvirðing“ til að ná sáttum við sjálfan mig og gerast meðlimur í hópnum. Sá reyndar fyrir mér að innan skamms væri ég mættur í einhvern þáttinn á RÚV til að sannfæra alla í kringum mig að ég væri hamingjusamt feitt eintak af miðaldra manni. Þetta var auðvitað kjaftæði. Ég er ennþá ungur. Eitthvað yrði að gera í málunum og það ekki seinna en strax. Ég er búinn að vera missveittur í ræktinni undanfarið hjá landbúnaðarfrömuðinum Jóni Bónda, hef hugsað allvel um mataræðið og lít nú í spegil og sé fyrir mér tignarlegt tígrisdýr. Allavega svona niður að nafla. Hef alveg sleppt því að pósta myndum en það styttist í það.

Það er alveg stórmerkilegt að fylgjast með fólki á facebook. Crossfit-liðið er auðvitað geðbilaðasta fólkið á gervallri jörðinni. Það má ekki fara í stuttbuxur án þess að pósta mynd af sér rífandi í lóð eða kastandi dvergum með angistarsvip á milli sín, haldandi á einhverju hressandi „Boosti“ á meðan. Mikið hlýtur því fólki að líða vel. Til samanburðar hef ég aldrei póstað mynd af mér liggjandi í sófanum með Prins Póló mylsnu í skegginu, sötrandi Egils appelsín með lakkrísröri horfandi á Dr. Phil eða Opruh. Það gerist ekki og mun aldrei gerast. Svo eru allar sætu stelpurnar sem eru svo horaðar að maður tekur frekar eftir því heldur en splunkunýjum sílikonbrjóstum sem hafa kostað skildinginn. Svona er nú heimurinn sérstakur.

Þetta verður góð helgi. Herrakvöld KA framundan sem er ómissandi hlutur af tilverunni. Nú skal borðað og drukkið sem aldrei fyrr. Í stað tígrisdýrs verður ásýndin nær hamstri eftir helgina.

Góða helgi


Greinin er aðsend – skoðanir pistlahöfundar þurfa ekki að endurspegla skoðanir ritstjórnar Kaffisins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó