Gæludýr.is

Spennandi og fjölbreytt starfsár Menningarfélags Akureyrar  framundan

Spennandi og fjölbreytt starfsár Menningarfélags Akureyrar  framundan

Starfsár Menningarfélags Akureyrar hefst með hvelli þegar hinn óviðjafnanlegi dúett Hundur í óskilum mætir aftur á svið Samkomuhússins og nú með sýninguna Njála á hundavaði. Leikarar eru að vanda Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson og leikstjóri Ágústa Skúladóttir. Sýningar hefjast í Samkomuhúsinu 22. september.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands fagnar 30 ára afmæli sínu með glæsilegum hátíðartónleikum í Hofi þann 29. október. Sveitin flytur Óðinn til gleðinnar – 9. sinfóníu Beethovens. Hljómsveitarstjóri er Bjarni Frímann Bjarnason en einsöngvarar eru Herdís Anna Jónasdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Gunnar Björn Jónsson og Oddur Arnþór Jónsson. Kór Akureyrarkirkju og Mótettukórinn taka þátt í afmælistónleikunum. 

Sinfóníutónleikarnir Egill Ólafsson – Heiðraður fara fram í Hofi 18. nóvember. Fram koma Eyþór Ingi & Babies og SinfoniaNord. Flutt verða lög og tónverk í spariklæðnaði frá glæsilegum ferli Egils Ólafssonar með sérstaka áherslu á Þursaflokksárin. Sérstakir gestir eru Diddú og Ólafur Egill Egilsson en heiðursgestur er sjálfur Egill Ólafsson. Hljómsveitarstjóri Guðni Franzson.

Í desember verður Ævintýri á aðventunni flutt í Samkomuhúsinu. Um samstarf Leikfélags Akureyrar og sviðslistahópsins Hnoðra í norðri er að ræða. Leikstjóri verksins er Jenný Lára Arnórsdóttir en flytjendur eru Jón Þorsteinn Reynisson harmonikkuleikari og söngkonurnar Björk Níelsdóttir og Erla Dóra Vogler.

Í janúar er komið að barnasýningunni Litla skrímslið og stóra skrímslið en sýningar fara fram í Hofi. Verkið er byggt á vinsælum bókum Áslaugar Jónsdóttur en þær hafa slegið í gegn hjá börnum frá fyrstu útgáfu árið 2004 og verið þýddar á ótal tungumál. Leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir en leikarar eru Margrét Sverrisdóttir og Arnþór Þórsteinsson.

Þann 18. febrúar er komið að stórmerkilegum viðburði þegar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands flytur Pláneturnar eftir Gustav Holst. Stjörnu-stjörnufræðingurinn Sævar Helgi Bragason leiðir áheyrendur í gegnum sögu plánetanna og tilkomumiklu myndefni verður varpað upp meðan á tónlistarflutningnum stendur. Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason.

Leikritið And Björk, of course eftir Þorvald Þorsteinsson verður frumsýnt í Samkomuhúsinu í febrúar. Verkið er nærgöngult og hrollvekjandi háðsádeila þar sem merkingarleysi nútímans er lýst án miskunnar. Verkið er í senn sprenghlægilegt, óviðeigandi og óþægilegt. Leikarar eru Jón Gnarr, Sverrir Þór Sverrisson, Eygló Hilmarsdóttir, Arna Magnea Danks, Davíð Þór Katrínarson, María Pálsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir en leikstjóri er Gréta Kristín Ómarsdóttir.

Páskatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands verða í hressari kantinum. Tónleikarnir Stjórnin&SinfoniaNord fara fram í Hofi á skírdag. Stórhljómsveitin Stjórnin mun í fyrsta sinn koma fram með sinfóníuhljómsveit. Einsöngvarar eru að vanda Sigríður Beinteinsdóttir og Grétar Örvarsson en um útsetningar og hljómsveitarstjórn sér Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson.

Í maí fara fram skólatónleikarnir Karnival dýranna eftir Saint-Saëns en enginn annar en leikarinn Björgvin Franz verður sögumaður.

Listamenn og -hópar sem fengu styrk frá Verðandi listsjóði halda sína viðburði í Hofi í ár líkt og fyrri ár en níu atriði fengu styrk að þessu sinni. Þar má meðal annars nefna viðburðinn gímaldin flytur Hetfield píanó proekt, sem er tilvistar- og aðferðafræðileg tilraun um eðli tónlistar, og fer fram 8. september, ÞAU í Hofi, þar sem Rakel Björk Björnsdóttir og Garðar Borgþórsson, flytja nýja og spennandi tónlist við ljóð norðlenskra skálda 26. október og viðburðinn Úr tóngarðinum, samstarfsverkefni Sigríðar Huldu Arnardóttur söngkonu og Brynjólfs Brynjólfssonar gítarleikara, sem fram fer 15. mars.

Að auki munu fjölmargir viðburðahaldarar taka hús á Hofi, bæði gamlir og góðir gestir sem og nýir og spennandi. Bara í september fara fram afmælistónleikarnir Við eigum samleið og Nostalgíutónleikar Guðrúnar Árnýjar auk þess sem Skálmöld og Hvanndalsbræður halda sína tónleika í mánuðinum. Í október verða heiðurstónleikar Ellu Fitzgerald og tvennir tónleikar hjá hljómsveitinni Nýdönsk. Jón Ólafsson mætir líka með viðburð sinn, Af fingrum fram, þar sem hann tekur á móti bræðrunum Friðriki Dór og Jóni Jónssyni. Þar að auki mun Álftagerðisbróðirinn fagna sjötugsafmælinu sínu með hvorki meira né minna en þrennum tónleikum. Í nóvember er komið að því sem eflaust margir eru spenntir fyrir en þá mun rafveitan Gusgus halda tónleika í Hofi. Auk þess verður leikritið Pabbinn hittir afann sýnt í Hofi. Aðventan heilsar svo með stútfullri dagskrá með tilheyrandi jólatónleikum á borð við Heima um jólin hans Friðriks Ómars, Þorláksmessutónleikum Bubba, jólatónleikum á vegum Rún viðburða, jólatónleika Valdimars Guðmundssonar og svo náttúrulega Áramótaskopi Ara Eldjárns. Í febrúar kemur Jón Ólafsson aftur með Af fingrum fram þegar hann tekur á móti söng- og leikkonunni Katrínu Halldóru. Þetta er aðeins brot af þeim viðburðum sem verða í Hofi á starfsárinu svo það er um að gera að fylgjast vel með á mak.is en eitt er ljóst og það er að það verður heldur betur líf og fjör í húsinu og eitthvað fyrir alla.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó