NTC

Spennan magnast fyrir Súlur vertical 

Spennan magnast fyrir Súlur vertical 

Um helgina fer fram hlaupaveislan Súlur vertical á Akureyri. Um 520 einstaklingar á aldrinum 17-68 ára keppa í fjórum vegalengdum, Gyðjunni (100 km), Tröllinu (43 km), Súlum (28 km) og Fálkanum (19 km). Með sanni má segja það séu alvöru hlaupagarpar sem taka þátt í þessum hlaupum, en auk þess sem hlaupin eru löng, þá er hæðarmetrarnir ekkert grín eða 3580 m, 1870 m, 1410 m og 530 m. Fyrir suma hlaupara er aðalatriðið að ná að klára þessa þolraun, á meðan önnur eru í harðri keppni um að ná persónulegum metum eða jafnvel á pall. 

Gyðjan: 100 km

31 ofurhugi aldrinum 19-56 ára eru skráð í þetta 100 km hlaup og upphækkunin á leiðinni ekkert smáræði eða 3580 metrar. Ræst er tvívegis í samræmi við áætlaðan hlaupatíma, annars vegar kl:21:00 á föstudagskvöld og hins vegar kl:02:00 aðfaranótt laugardags. Rásmarkið sjálft er eitt það fallegasta sem fyrirfinnst, við Goðafoss. Hlaupið er vestur yfir Skjálfandafljót, farið yfir Bárðardalshraun, yfir Belgsárfjall, yfir í Fnjóskárdal í gegnum Vaglaskóg, þingmannaleið yfir Vaðlaheiðina, yfir leirurnar og í Kjarnaskóg. Þaðan tekur við sama leið og farin er í Tröllinu (43 km). Eftir því sem best er vitað eru mörg að þreyta frumraun sína í 100 km fjallahlaupi. Meðal keppenda eru stofnandi Súlur Vertical, Þorbergur Ingi Jónsson (Tobbi) og hlaupadrottningarnar Andrea Kolbeinsdóttir og Rannveig Oddsdóttir. Þetta er í annað sinn sem þessi vegalengd er í boði í Súlum vertical, en sigurtími karla í fyrra var 13 klst og 26 mínútur og 16 klst og 11 mínútur í kvennaflokki. Hvorugur sigurvegaranna frá því í fyrra þau Jón Gunnar og Hulda Elma munu taka þátt í ár og því ljóst að nýir sigurvegarar munu hampa gulli í Gyðjunni í ár. 

Tröllið:43 km

60 hlauparar á aldrinum 22-65 ára eru skráð í Tröllið, sem hefst í Kjarnaskógi kl:8:00 á laugardagsmorgni. 43 km og 1870 metra hækkun. Hlaupið hefst í Kjarnaskógi, en þaðan hlaupið upp í Gamla, yfir í Fálkafell, á Súluplan, upp á Súlur, Syðri Súlur, fram hjá Krumma og að Litla Krumma, niður Lambárdal, yfir Lambárjökul og upp á Lambáröxl. Þaðan er farið yfir að gönguskálanum í Lamba og aftur að Súlubílastæði og þaðan farin sama leið og bæði í Súlum og Fálkanum. Þorsteinn Roy sem að þessu sinni er skráður í Súlur sigraði karla hlaupið í fyrra á tímanum 4 klst og 3 mínútur, en þeir Halldór Hermann Jónsson og Baldvin Ólafsson tóku silfur og brons eru báðir skráðir til leiks nú. Thelma Björk sigraði í kvennaflokki í fyrra á tímanum 5 klst og 3 mín, en hún er ekki skráð til leiks í ár. Rannveig Oddsdóttir sem fékk silfur í fyrra, lætur í ár vaða í 100 km hlaupið, hins vegar er Hildur Aðalsteinsdóttir sem tók bronsið í fyrra skráð til leiks, en Eva Birgisdóttir sem var í fjórða sæti mun í ár skella sér í Súlur. 

Súlur: 29 km

93 hlauparar á aldrinum 18-58 ára hafa skráð sig til leiks í Súlu hlaupið sem er 29 km hlaup með 1410 m upphækkun. Líkt og í Tröllinu hefst hlaupið í Kjarnaskógi og hefst það kl:10:00. Hlaupið upp í Gamla, yfir í Fálkafell, á Súluplan og svo upp á Súlur og aftur niður á Súluplan. Þaðan er farin sama leið og í Fálkanum niður í miðbæ. Meðal sterkra hlaupara sem verður gaman að fylgjast með eru Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir, Þorsteinn Roy Jóhannsson, Jörundur Frímann Jónsson og Eva Birgisdóttir svo einhver séu nefnd. Í fyrra sigraði Snorri Björnsson Súlur í karlaflokki á tímanum 2 klst og 25 mínútur og Andrea Kolbeinsdóttir sigraði í kvennaflokki á tímanum 2 klst og 41 mínúta. Snorri er ekki skráður til leiks í ár og Andrea Kolbeins ætlar að skella sér í Gyðjuna. Hins vegar er silfurverðlaunahafinn frá því í fyrra, Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir skráð til leiks sem og Jörundur Frímann, bronsverðlaunahafinn frá því í fyrra. 

Fálkinn: 19km

335 einstaklingar á aldrinum 17-68 ára eru skráð í þetta 19 km hlaup með 530 m upphækkun. Þrátt fyrir að þetta sé stysta hlaupið í þessari hlaupaseríu, þá er Fálkinn ekkert grín. Hlaupið hefst í Kjarnaskógi og er ræsing í nokkrum hópum frá kl:11:30-12:00. Byrjað er á því að hlaupa upp í Gamla, yfir í Fálkafell, niður á Súluplan, yfir Gleránna og upp „Dauðagilið“. Þaðan er hlaupinn Fallorkustígurinn að Hlíðarbraut og haldið áfram með fram Glerá að Háskólanum á Akureyri. Að lokum eru síðustu 2-3 km hlaupnir með fram götum bæjarins niður í miðbæ Akureyrar og í mark. Í fyrra sigraði Íris Anna Skúladóttir þessa vegalengd í kvennaflokki á tímanum 1 klst og 23 mínútur og er hún skráð á ný til leiks í ár. Halldóra Huld sem fékk silfrið í fyrra er ekki skráð til leiks í ár en Anna Berglind sem tók bronsið í fyrra tekur nú þátt í Tröllinu. Sigurjón Sturluson sem sigraði þessa vegalengd í karlaflokki í fyrra á tímanum 1 klst og 17 mínútur, hendir sér í ár í Tröllið, en hvorki Þórólfur Ingi né Logi sem tóku silfur og brons í fyrra eru skráðir til leiks í ár. Karlahlaupið gæti því orðið sérstaklega áhugavert í ár. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó