Sópar að sér verðlaunum fyrir Blaðberann: „Ég er óendanlega þakklát“

Sópar að sér verðlaunum fyrir Blaðberann: „Ég er óendanlega þakklát“

Akureyringurinn Ninna Rún Pálmadóttir hefur verið að vekja verðskuldaða athygli á kvikmyndahátíðum undanfarið fyrir stuttmyndina Blaðberinn. Blaðberinn er fjórða stuttmynd Ninnu sem flutti nýverið heim til Íslands eftir nám í kvikmyndagerð í New York í Bandaríkjunum.

Myndin hefur sópað að sér verðlaunum en hún hefur unnið Áhorfendaverðlaun á Seattle International Film Festival 2019, Besta Íslenska Stuttmyndina á RIFF 2019, Sólveig Anspach Verðlaunin, Besta Erlenda Stuttmyndin á Euroshorts Young Filmmakers hátíðinni í Póllandi og Sprettfiskinn á Stockfish Film Festival 2020. Auk þess er myndin tilnefnd til Edduverðlaunanna sem hefur verið frestað vegna COVID-19.

Blaðberinn er saga af kornungum blaðbera í litlu sjávarþorpi sem verður vitni að sársaukafullu atviki þegar hann stelst að kíkja inn um glugga nágranna síns. Hann reynir í kjölfarið að vera til staðar fyrir manneskju sem þekkir hann ekki. Ninna segir í samtali við Kaffið að ferlið við gerð myndarinnar hafi verið langt, lærdómsríkt, gefandi, erfitt og stórkostlegt.

„Að gera stuttmynd er alls konar og miklar tilfinningar sem fylgja því. Ég skrifaði handritið sumarið 2017, við skutum myndina í nóvember 2017, hún var ekki fullkláruð fyrr en ári seinna nóvember 2018 og frumsýndi á kvikmyndahátíð maí 2019. En eins og einhver sagði: þetta er maraþon, ekki spretthlaup.“

„Það er algjör þumalputtaregla að vera með báða fætur á jörðinni þegar kemur að sýningum, kvikmyndahátíðum eða verðlaunum. Toppnum mínum er yfirleitt alltaf náð ef ég fæ að sýna mynd á skjá fyrir áhorfendur. Mér þykir afskaplega vænt um þau tækifæri og það er búið að kenna mér ótrúlega mikið sem leikstjóri. Ég er óendanlega þakklát fyrir þau hlýju viðbrögð sem Blaðberinn hefur fengið.“

Kvikmyndin verður aðgengileg fyrir almenning á netinu þegar hún klárar kvikmyndahátíðaferðalag sitt. Ninna segist búast við því að það verði seint í vor eða í sumar.

Það verður þó nóg að gera hjá Ninnu þangað til. Útskriftarmyndin hennar, Allir Hundar Deyja, var fullkláruð nú í febrúar og nú vinnur hún að því að skrifa sitt fyrsta handrit af kvikmynd í fullri lengd.

„Nú krossar maður fingur um að fá að sýna Allir Hundar Deyja á einhverri kvikmyndahátíð. Svo vonast ég til þess að geta tekið upp mynd í fullri lengd eftir sirka tvö ár. Síðan reyni ég bara alltaf að vera með opinn hug að prufa eitthvað nýtt og skemmtilegt. Kvikmyndataka hefur alltaf verið mikil ástríða og ég hef verið að vinna í að safna í reynslubankann þar til hliðar öllu öðru.“

Ninna er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að læra kvikmyndagerð í New York og segir að hún hafi haft gott af því að stíga út fyrir þægindarammann og búa erlendis. Hún mælir með því fyrir alla.

„New York var allt og ekkert sem ég bjóst við.Þessi þrjú ár liðu hlægilega hratt, þetta var mikið hark og gríðarlega mikil vinna öll árin. En það sagði nefnilega enginn að þetta yrði auðvelt – og það er það sem ég er svo þakklát fyrir að læra í New York: að ef þú brennur fyrir kvikmyndagerð þá verðuru að vinna endalaust að því. Þú mætir fullt af höfnunum og hindrunum en verður að halda áfram sama hvað. Það var líka ótrúlega gefandi að vera í bekk með kvikmyndagerðafólki alls staðar að úr heiminum. Sjá alla móta sína rödd og segja sínar sögur sem eru svo ólíkar en tengjast samt svo sterkt á einfaldan mannlegan hátt. Það að læra og búa í New York minnti mig líka á hvað ég tengist Íslandi sterktum böndum og hvað það hefur mótað mig sem kvikmyndagerðakonu. Gott að vera komin heim í bili.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó