Framsókn

SÖNN NORÐLENSK SAKAMÁL – Helstu verkefni lögreglunnar á Norðurlandi eystra dagana 27. ágúst til 3. september 2018

SÖNN NORÐLENSK SAKAMÁL – Helstu verkefni lögreglunnar á Norðurlandi eystra dagana 27. ágúst til 3. september 2018

Sönn norðlensk sakamál er yfirlit yfir helstu verkefni lögreglunnar á Norðurlandi eystra í vikunni sem leið. Þessi þáttur er unninn í samstarfi við lögregluna og er ætlaður til að upplýsa samfélagið um það fjölbreytta starf sem lögreglan vinnur og þau saknæmu athæfi sem eiga sér stað í nærumhverfi okkar daglega.

Liðin vika gekk nokkuð vel hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Talsvert var um að ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur og nokkur umferðaróhöpp rötuðu á borð lögreglunnar. Í engu tilfelli slasaðist fólk hins vegar.

Í vikunni voru:
– 12 umferðaróhöpp tilkynnt til lögregluna, öll án alvarlegra slysa.
– 27 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur.
– 4 ökumenn voru stöðvaðir vegna aksturs undir áhrifum áfengis.
– 1 ökumaður var stöðvaður vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna.

Innbrotsmálum fer fjölgandi
Eins og greint var frá í síðasta þætti sannra norðlenskra sakamála var brotist inn á heimili í Mývatnssveit og töluverðum fjármunum stolið þaðan. Í þessari viku voru fimm þjófnaðarmál til viðbótar tilkynnt til lögreglunnar. Þjófnaður var framinn á Húsavík, Raufarhöfn og Kópaskeri þar sem alls staðar var brotist inn í ólæst hús. Lögreglan á Austurlandi hefur einnig tilkynnt innbrot á sínu svæði, á Eskifirði og á Neskaupstað.

Útiloka ekki að tengsl séu á milli innbrotanna
Lögreglan er nú að vinna hörðum höndum að rannsókn málanna til að reyna að hafa upp á hverjir voru að verki. Í kjölfarið hafa íbúar í öllu umdæminu verið duglegir við að tilkynna grunsamlegar mannaferðir til lögreglu. Lögreglan útilokar ekki að tengsl séu á milli innbrotanna. „Í sumar hefur verið farið inn í hús víða um land og verðmætum stolið. Einkenni þessa hefur verið að aðilar fara inn í ólæst hús yfir daginn, þegar fólk er vanalega í vinnu. Það sem þessir aðilar virðast gera er að þeir reyna að fara þangað sem engir eru heima, banka en fara inn ef enginn kemur til dyra og hús eru ólæst. Þeir eru einnig tilbúnir með einhverjar skýringar þegar fólk er heima og kemur að þeim, eins og að spyrja um gistingu eða jafnvel nefna einhver nöfn erlendra aðila og þá hvort viðkomandi búi ekki hér,” segir í tilkynningu lögreglu.

Bocciaþjálfari dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir nauðgun
Fyrrverandi bocciaþjálfari á Akureyri var í Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 31. ágúst sl. dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að nauðga þroskaskertri stúlku sem hann þjálfaði Maðurinn, sem er fimmtugur, er dæmdur fyrir að misnota yfirburðarstöðu sína gagnvart stúlkunni og notfæra sér fötlun hennar en brotin voru ítrekuð og stóðu yfir í heilt ár. Manninum var kunnugt um fötlun hennar vegna tengsla við hana sem þjálfari hennar hjá íþróttafélaginu Akri á Akureyri sem hann þjálfaði hjá. Þá útvegaði hann stúlkunni einnig húsnæði og bíl í byrjun árs 2015 og gerðist síðan persónulegur talsmaður stúlkunnar um vorið.

Stúlkan ekki fær um að sporna við þrýstingi mannsins
Maðurinn neitaði sök en játar því að hafa átt ítrekað samræði við stúlkuna, en með hennar samþykki. Dómskvaddur sálfræðingur segir í dómnum að stúlkan sé með væga þroskahömlun, en það þýði þó ekki að ástand hennar sé vægt. Stúlkan hafi alla tíð verið í þjónustukerfi fatlaðra og að mati sálfræðingsins hafi hún ekki verið fær um að sporna við þrýstingi af hálfu mannsins. Maðurinn fékk fjögurra ára fangelsisdóm og þarf að greiða stúlkunni tvær milljónir króna í skaðabætur. Einnig ber honum að greiða 3,5 milljónir í sakarkostnað.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó